Enski boltinn

Tvær konur til viðbótar saka Antony um ofbeldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antony er í vandræðum.
Antony er í vandræðum. getty/Shaun Botterill

Tvær konur til viðbótar hafa sakað Antony, leikmann Manchester United, um að hafa beitt sig ofbeldi.

Fyrrverandi kærasta Antonys, Gabriela Cavallin, hefur þegar sakað hann um ofbeldi. Lögreglan í Sao Paulo og Manchester eru með málið til rannsóknar. Antony hafnar sök.

Í gær stigu tvær konur til viðbótar fram og sökuðu Antony um að hafa beitt sig ofbeldi.

Laganeminn Rayssa de Freitas sagði að hún hefði þurft á læknisaðstoð að halda eftir að Antony og kona ein réðust á hana í bíl leikmannsins eftir að þau yfirgáfu skemmtistað.

Bankastarfsmaðurinn Ingrid Lana hefur svo sakað Antony um að hafa beitt sig ofbeldi í október síðastliðnum. „Hann reyndi að stunda kynlíf með mér en ég vildi það ekki. Hann ýtti mér þannig ég skall með höfuðið í vegg,“ sagði Lana.

United sendi á miðvikudaginn frá sér yfirlýsingu um að félagið væri meðvitað um ásakanirnar á hendur Antony og tæki málið alvarlega.

Cavallin hefur hins vegar sakað United um að hafa hylmt yfir með Antony. Lögmenn Cavallins vilja meina að stuðningsfulltrúi leikmanna United, sem var kallaður til eftir að Antony réðist á Cavallin, hafi kallað eftir lækni félagsins til að koma í veg fyrir að hún leitaði sjálf á spítala sem hefði getað vakið upp grunsemdir.

Fyrr í vikunni var Antony tekinn út úr brasilíska landsliðshópnum vegna ásakana um ofbeldið sem hann á að hafa beitt Cavallin.

United keypti Antony frá Ajax fyrir rúmlega áttatíu milljónir punda í fyrra. Hann hefur leikið 48 leiki fyrir United og skorað átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×