Þetta kemur fram í tilkynningu Eikar til kauphallar. Þar segir þó að stjórnin líti á hækkun tilboðsverðsins sem jákvæða þróun. Greint var frá því á dögunum að Reginn hefði ákveðið að hækka yfirtökutilboð sitt í allt hlutafé Eikar úr 0,452 hlutum í tilboðsgjafa í 0,489 hluti í tilboðsgjafa.
Það gerði félagið daginn eftir að stjórn Eikar gaf út greinargerð þar sem kom fram að stjórnin legði til að hluthafa höfnuðu tilboði Regins. Áður höfðu Brimgarðar, langsamlega stærsti hluthafi Eikar lýst yfir andstöðu sinni við samþykkt tilboðsins.
Í tilkynningu segir að stjórn hyggist birta uppfærða afstöðu til hins breytta tilboðs Regins, að minnsta kosti einni viku áður en gildistími þess rennur út, enda kunni þær forsendur sem liggja til grundvallar hinu breytta tilboði Regins og afstaða stjórnar, að halda áfram að þróast þar til gildistími yfirtökutilboðsins rennur út.
Gildistími hins breytta tilboðs er óbreyttur og rennur út klukkan 13:00 þann 16. október 2023.