Enski boltinn

Maddison gerði grín að Saka eftir fagnið hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bukayo Saka fagnaði að hætti James Maddison eftir að Arsenal komst í 1-0 gegn Tottenham.
Bukayo Saka fagnaði að hætti James Maddison eftir að Arsenal komst í 1-0 gegn Tottenham. getty/Alex Pantling

James Maddison gat ekki stillt sig um að skjóta á félaga sinn í enska landsliðinu, Bukayo Saka, eftir að hann hermdi eftir fagni hans í Norður-Lundúnaslag Arsenal og Tottenham.

Saka og Maddison komu mikið við sögu í leiknum á Emirates í gær. Arsenal náði forystunni á 26. mínútu þegar skot Sakas fór af Cristian Romero og í netið. Son Heung-min, fyrirliði Tottenham, jafnði þremur mínútum fyrir hálfleik eftir sendingu frá Maddison sem sneri skemmtilega á Saka áður en hann fann Son.

Saka kom Arsenal aftur yfir með marki úr vítaspyrnu á 54. mínútu en Son jafnaði í næstu sókn, aftur eftir undirbúning frá Maddison. Lokatölur 2-2 í leik erkifjendanna.

Eftir sjálfsmark Romeros í fyrri hálfleik fagnaði Saka með því að þykjast kasta pílu, eins og Maddison fagnar venjulega. Eftir leikinn var Maddison spurður út í fagnið hjá Saka.

„Við Bukayo höfum verið að munnhöggvast góðlátlega í landsliðinu. Mér var sagt að hann hefði notað pílufagnið. Hann var örugglega enn að gera það þegar ég sneri á hann í fyrra markinu okkar,“ sagði píluáhugamaðurinn Maddison.

Hann kom til Spurs frá Leicester City fyrir tímabilið og hefur farið vel af stað með nýja liðinu. Í sex leikjum með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni hefur Maddison skorað tvö mörk og lagt upp fjögur.

Tottenham og Arsenal eru bæði með fjórtán stig í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×