Guðbergur Bergsson lést 4. september síðastliðinn, 91 árs að aldri. Guðbergur var einn þekktasti rithöfundur landsins; eftir hann liggur fjöldi bóka af ýmsum toga og greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál. Og í dag á að kveðja hann með pompi og prakt í Hörpu. Guðni Þorbjörnsson, sambýlismaður Guðbergs, stendur að athöfninni. Hann segir að það hafi alls ekki komið til greina að halda hefðbundna útför fyrir Guðberg.
„Þetta er ekkert venjulegur viðburður, þetta er eitthvað sem enginn hefur séð áður. Við erum með Hörpuna út af fyrir okkur. Þarna verðum við með landslið listamanna með okkur, tónlistarfólk, rithöfunda og alla bestu vini okkar. Þarna verður Bubbi Morthens vinur okkar með sturlað atriði sem enginn hefur séð aður. Þá er Bubbi að búa til nýtt lag fyrir okkur,“ segir Guðni.
Allir velkomnir og beint streymi á Vísi
Athöfnin verður sett upp sem „hinsta listaverk“ Guðbergs, að sögn Guðna. Séra Sigfinnur Þorleifsson stýrir kveðjustundinni og auk áðurnefnds Bubba Morthens koma meðal annarra fram Ragnar Jónasson, Steinunn Sigurðardóttir og Jóhann Páll Valdimarsson. Blóm og kransar eru afþakkaðir í anda Guðbergs - og athöfnin er opin öllum.
„Þetta er ofsalega flottur viðburður og það eru allir velkomnir. Þannig að ég vona að sem flestir komi og verði með okkur,“ segir Guðni Þorbjörnsson.
Kveðjuathöfn Guðbergs hefst klukkan fjögur í Silfurbergi í Hörpu. Streymt verður beint frá athöfninni á Vísi.