Handbolti

Íslendingalið Balingen úr leik eftir tap gegn B-deildarliði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Daníel Þór Ingason og félagar eru úr leik í þýska bikarnum.
Daníel Þór Ingason og félagar eru úr leik í þýska bikarnum. Cathrin Mueller/Getty Images

Það var nóg um að vera í þýsku bikarkeppninni í handbolta í dag þar sem níu leikir fóru fram. Nóg af Íslendingum voru í eldlínunni, en Íslendingalið HBW Balingen-Weilstetten féll óvænt úr leik gegn B-deildarliði TuS N-Lübbecke.

Gestirnir í Balingen skoruðu fyrsta mark leiksins, en það var í eina skiptið sem liðið hafði forystuna í leiknum. Heimamenn komust fljótt í forystu og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleiknum, en staðan var 16-12 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik tókst gestunum í Balingen að minnka muninn niður í eitt mark í nokkur skipti, en nær komust þeir ekki og niðurstaðan varð óvæntur tveggja marka sigur Lübbecke, 29-27.

Oddur Grétarsson skoraði eitt mark fyrir Balingen í dag, en Daníel Þór Ingason komst ekki á blað. Balingen er úr leik í þýska bikarnum, en Lübbecke á leið í 16-liða úrslit.

Þá munaði minnstu að Íslendingalið MT Melsungen, topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, færi sömu leið og Balingen er liðið heimsótti B-deildarlið Dessauer. Heimamenn í Dessauer leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 17-12, en Melsungen klóraði sig inn í leikinn í síðari hálfleik og vann að lokum nauman þriggja marka sigur, 28-31.

Þeir Arnar Freyr Arnarson og Elvar Örn Jónsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Melsungen.

Úrslit dagsins

THW Kiel 31-32 HSG Wetzlar

Düsseldorf 27-44 Gummersbach

HC Erlangen 35-38 Füchse Berlin

Hamm-Westfalen 35-36 Hamburg

TuS N-Lübbecke 29-27 HBW Balingen Weilstetten

HC Gelpe 27-37 TuSEM Essen

Dessauer 28-31 MT Melsungen

VfL Lübeck-Schwartau 25-33 Leipzig

VfL Eintracht Hagen 25-23 HSC 2000 Coburg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×