Stórstjörnur PSG áttu fá svör við ákveðnum leikmönnum Newcastle á St James' Park í gær. Miguel Almirón, Dan Burn, Sean Longstaff og Fabian Schär skoruðu mörk Skjóranna á eftirminnilegu Evrópukvöldi.
Trippier stóð að vanda fyrir sínu í vörn Newcastle sem hafði góðar gætur á Kylian Mbappé og félögum í sóknarlínu PSG.
Sonur Trippiers, hinn sex ára Jacob, er mikill aðdáandi Mbappés og að sögn pabbans gerir strákurinn lítið annað en að horfa á myndbönd af Frakkanum. Jacob sagðist líka frekar vilja ganga út á völlinn með Mbappé en pabba sínum.
Eftir leikinn í gær fékk Trippier treyju Mbappés og gaf syni sínum hana. Hann birti mynd af Jacob í Mbappé-treyjunni á Instagram.
Newcastle er með fjögur stig á toppi D-riðils Meistaradeildarinnar. Í næstu tveimur leikjum sínum í keppninni mætir liðið Borussia Dortmund.
Næsti leikur Newcastle í ensku úrvalsdeildinni er gegn West Ham United á útivelli á sunnudaginn.