Innlent

Vill dæma þá í fangelsi sem gerast sekir um samráð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson hefur miklar áhyggjur af því að Samkeppniseftirlitið fái ekki nægar fjárveitingar.
Vilhjálmur Birgisson hefur miklar áhyggjur af því að Samkeppniseftirlitið fái ekki nægar fjárveitingar. Vísir/Vilhelm

Vil­hjálmur Birgis­son, for­maður Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness, segir að sér sé brugðið yfir því hve lágar fjár­hæðir séu lagðar í rekstur Sam­keppnis­eftir­litsins á hverju ári. Hann skorar á stjórn­völd að tryggja eftir­litinu nægt fjár­magn svo hægt sé að auka til muna eftir­lit með sam­keppnis­brotum. Þá vill hann fangelsisdóma yfir þeim sem eru staðnir að stórtæku samráði.

„Nú liggur krafa sam­kvæmt fjár­lögum ef ég skil þetta rétt að Sam­keppnis­eftir­litið skeri kostnað sinn niður um 24 milljónir. Þetta er gjör­sam­lega galið enda hefur Sam­keppnis­eftir­litið sýnt og sannað hversu gríðar­lega mikil­vægt það er ís­lenskum neyt­endum,“ segir Vil­hjálmur Birgis­son, sem gerir málinu í skil á sam­fé­lags­miðlinum Face­book.

Hann segir ekki þurfa að leita lengra aftur að dæmum um mikil­vægi Sam­keppnis­eftir­litsins en til sam­ráðs skipa­fé­laganna Eim­skips og Sam­skips. Vil­hjálmur segir alls ekki ó­lík­legt ef Sam­keppnis­eftir­litið hafi rétt fyrir sér þá sé hér um að ræða einn stærsta glæp gagn­vart neyt­endum sem fram­kvæmdur hafi verið hér á landi.

„Rétt að minna á sektar­greiðslur vegna Sam­skips nema 4,2 milljörðum og sáttar­greiðsla Eim­skips nam 1,5 milljörðum og saman­lagt mun því renna til ríkis­sjóðs 5,7 milljarðar. Eftir mínum upp­lýsingum þá hefur SKE sektað vegna brota á sam­keppnis­lögum fyrir tæpa 20 milljarða og því ó­skiljan­legt að ekki sé lagt meira fé til að efla SKE.“

Segir sér­hags­muna­hópa vilja þrengja að eftir­liti

Vil­hjálmur minnir á að Sam­keppnis­eftir­litið hafi sektað fjöl­mörg fyrir­tæki vegna brota á sam­keppnis­lögum. Hann segir mikil­vægt að allir viti að brot á sam­keppnis­lögum bitni illi­lega á neyt­endum og heimilum þessa lands.

Hann segir að á sama tíma og stjórn­völd leggi til niður­skurð hjá Sam­keppnis­eftir­litinu hér þá séu stjórn­völd í Sví­þjóð að leggja til 20 prósent aukningu á fjár­fram­lagi til eftir­litsins þar. Þá segir Vil­hjálmur að meira að segja Joe Biden, Banda­ríkja­for­seti, vilji auka fjár­heimildir til eftir­litsins þar í landi.

„Það blasir við sér­hags­muna­hópar í ís­lensku sam­fé­lagi vilja þrengja eins mikið að SKE eins og kostur er, enda hræðast þeir SKE en mikil­vægt að í svona fá­keppnis­landi eins Ís­landi verður að vera öflugt Sam­keppnis­eftir­lit þar sem hags­munir neyt­enda verði tryggðir fyrir brotum á sam­keppnis­lögum.“

Vil­hjálmur segist skora á stjórn­völd og Al­þingi að efla og tryggja Sam­keppnis­eftir­litinu nægt fjár­magn til að auka til muna eftir­lit með sam­keppnis­brotum. Enda séu gríðar­legir hags­munir í húfi fyrir ís­lenska neyt­endur. Hann segir aukið fjár­magn til eftir­litsins muni skila sér marg­falt til baka fyrir ís­lenska neyt­endur og sam­fé­lagið í heild.

Þá bætir Vilhjálmur við að hann vilji frekar sjá öðrum viðurlögum beitt í slíkum málum en sektargreiðslum.

„Enda óttast ég að það séu neytendur sem á endanum borgi þessar sektir. Það á að dæma þá aðila sem verða uppvísir að stórfeldum brotum á samkeppnislögum til fangelsvistar og einnig að útiloka þá aðila sem koma að svona brotum frá stjórnun fyrirtækja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×