Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu í gær að biskup Íslands hafi ekki mátt taka neinar stjórnsýsluákvarðanir í embætti sínu eftir að skipunartími hennar rann út sumarið 2022. Þegar skipunartíminn rann út var gerður við hana ráðningarsamningur sem gildir út október á næsta ári.
Kirkjuþing fékk ekki að ákvarða
Sá samningur var öðruvísi en aðrir samningar þar sem hann var sá fyrsti sem gerður var við biskup eftir að þjóðkirkjan fékk aukið sjálfstæði með lögum sem sett voru árið 2021. Fylgdi þeim lögum skilaboð frá ríkinu um að Kirkjuþing þyrfti að setja reglur um hvernig samningamálum yrði háttað.
Samningurinn var hins vegar gerður áður en Kirkjuþing hafði ákvarðað um það. Því metur nefndin það sem svo að þær stjórnsýsluákvarðanir sem hún tók hafi verið marklausar og gildi ekki.
Má ekki vera í lausu lofti
Biskup segist una niðurstöðunni þrátt fyrir að hún áfrýi henni.
„Það þýðir ekki að deila við dómarann. Dómarinn hlýtur að komast að niðurstöðu sem við verðum alltaf að una. Ég una þessum úrskurði en mér finnst það ekki nógu skýrt fyrir þjóðkirkjuna til framtíðar litið og fyrir biskupsembættið til framtíðarinnar litið að vera í lausu lofti með þetta,“ segir Agnes.
Sex kvörtuðu undan áreiti og einelti
Málið var tekið fyrir eftir kvörtun frá fyrrverandi sóknarpresti við Digraneskirkju en honum var sagt upp eftir að í ljós kom að hann hafi minnst tíu sinnum orðið uppvís að háttsemi sem stríðir gegn reglum þjóðkirkjunnar en sex konur höfðu sakað hann um kynferðislega áreitni og einelti.
Það mál er hluti af ákveðinni ólgu sem ríkt hefur innan kirkjunnar undanfarna mánuði. Agnes telur að hægt sé að komast aftur á lygnan sjó.
„Við þurfum öll að stefna í sömu átt. Við erum að ganga í gegnum mjög miklar breytingar og breytingum fylgir alltaf pínu stormur og átök. Við þurfum að finna betur út hvar við ætlum að taka land í þessum miklu breytingum sem hafa átt sér stað undanfarin ár. Ég hef fulla trú á að það muni takast,“ segir Agnes.