Körfubolti

„Þurftum á öllu okkar að halda til að vinna hér í kvöld“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson skoraði 40 stig fyrir Stjörnuna í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson skoraði 40 stig fyrir Stjörnuna í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Ægir Þór Steinarsson átti sannkallaðan stórleik er Stjarnan vann tíu stiga sigur gegn Hamri í Hveragerði í Subway-deild karla í kvöld, 80-90.

Ægir gerði sér lítið fyrir og skoraði 40 stig fyrir Stjörnuna og átti stóran þátt í því að liðið vann torsóttan sigur gegn nýliðum Hamars.

„Við vissum það þegar við komum inn í þennan leik að þetta yrði mjög erfitt. Það er erfitt að koma hingað, þeir eru með frábæra umgjörð og góða stemningu í húsinu. Þetta var skemmtileg upplifun að koma hingað og þeir eru að standa sig vel. Við þurftum á öllu okkar að halda til að vinna hér í kvöld,“ sagði Ægir í viðtali eftir leikinn.

Eins og áður segir skoraði Ægir 40 stig fyrir Stjörnuna í kvöld, en hann segir þó mikilvægast að liðið hafi unnið.

„Ég er mest sáttur með, og það er skrýtið að segja það eftir svona frammistöðu, að hvað það er mikill léttir að ná í sigur. Það er það sem okkur langaði mest í og það er kærkomið.“

Stjörnumenn voru lengi í gang í leik kvöldsins og lentu 16 stigum undir strax í fyrsta leikhluta. Ægir segir þó að hann hafi gert ráð fyrir því að leikurinn í kvöld yrði brekka.

„Við vissum það þegar við komum inn í leikinn að þetta yrði kannski smá basl og erfitt. Við vorum að finna góð „look“ og það er eitthvað sem maður þarf að sannfæra sjálfan sig um til að ná í góð færi. Við þurfum kannski bara að einbeita okkur aðeins meira að varnarleiknum og halda haus.“

Þá ítrekaði Ægir að það væri mikill léttir að ná í sigurinn í kvöld, enda var þetta fyrsti sigur Stjörnunnar á tímabilinu.

„Sjálfstraust getur breyst á einni kvöldstund. Maður veit það að með sigri geta hlutir breyst ansi hratt,“ sagði Ægir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×