Bæði lið hafa byrjað tímabilið illa og var um sannkallaðan botnslag að ræða. Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins og létu kné fylgja kviði. Staðan var snemma leiks 1-7 og virtist ekkert geta komið í veg fyrir sigur Stjörnunnar.
Þó heimamenn hafi rankað við sér var Stjarnan þó með fimm marka forystu í hálfleik, staðan 12-17. Heimamönnum tókst að minnka muninn niður í eitt mark í síðari hálfleik en nær komust þeir ekki. Stjarnan gaf í og vann fjögurra marka sigur, lokatölur 26-30.
Starri Friðriksson skoraði sjö mörk í liði Garðbæinga og Þórður Tandri Ágústsson skoraði fimm mörk úr jafn mörgum skotum. Í liði heimamanna var Einar Sverrisson með átta mörk.
Stjarnan er nú í 10. sæti með 5 stig en Selfoss tveimur sætum neðar í botnsætinu með 2 stig.