Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kíkjum við á mótmæli sem fóru fram í miðborg Reykjavíkur í gær vegna þess að Ísland greiddi ekki atkvæði með tillögu um vopnahlé á Gasa, sem lögð var fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Þingflokkur VG furðar sig á útspilinu. Við fáum einnig alþjóðastjórnmálafræðing sem lengi var búsettur í Jerúsalem í settið til að fara yfir stöðuna.
Við heyrum frá bændum sem segja neyðarástand í fjárhagi bænda. Matvælaráðherra hefur skipað hóp sem mun fara yfir stöðuna og skila tillögum um lausnir.
Deildarmyrkvi á tungli verður sjáanlegur frá öllu Íslandi í kvöld. Lítill hluti tunglskífunnar mun myrkvast og þá mun líta út eins og biti hafi verið tekinn úr tunglinu. Við fáum að heyra meira um deildarmyrkvann í beinni.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.