Þetta kemur fram í svari lögreglunnar við fyrirspurn fréttastofu.
Tilkynning um slysið barst þegar klukkan var tíu mínútur gengin í sex á mánudagseftirmiðdag. Átta ára drengur var á reiðhjóli á bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka og varð fyrir steypubíl.

Lögreglan sat í morgun fund ásamt bæjaryfirvöldum og verktaka sem sér um framkvæmdirnar við íþróttahús Hauka þar sem rætt var um aðstæður þarna á svæðinu.
„Breytingar verða gerðar á næstu dögum er varðar umferð gangandi/hjólandi inn að Vallarhverfinu á þessum stað. Girðingar settar upp, nýr stígur malbikaður fjarri vinnusvæðinu. Umræddi götu (Ásvellir) verður lokað fyrir almennri umferð við vinnusvæðið,“ segir í svari lögreglunnar.
Í kvöld fer fram opin samverustund í Ástjarnarkirkju þar sem fólk getur mætt og vottað hinum látna virðingu sína.