Innlent

Krefjast aukins fjár­magns til handa Heyrna- og tal­meina­stöðinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tæplega 300 eru á biðlista eftir þjónustu.
Tæplega 300 eru á biðlista eftir þjónustu. Getty

Þrettán félagasamtök sem öll tengjast Heyrna- og talmeinastöð Íslands með beinum hætti hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau gagnrýna harðlega fjárveitingar sem stöðin færi til að sinna lögbundnum skyldum sínum og verkefnum.

Heyrnar- og talmeinastöðinni ber að sinna heyrnamælingum, greiningum og meðferð á heyrna- og talmeinum. Þá sinnir HTÍ einnig meðferð og íhlutun vegna barna sem fæaðst með skarð í góm og/eða vör.

„Síðastliðin ár hefur HTÍ reynt að standast þær kröfur sem gerðar eru til stofnunarinnar samkvæmt lögum en komið er að þolmörkum. Miðað við núverandi fjárlög, húsakost, skort á faglærðum heyrnarfræðingum og talmeinafræðingum, aðstæðum til rannsókna og framþróunar er ljóst að brotið er á réttindum skjólstæðinga undirritaðra hagsmunaaðila til þess að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir að skjólstæðingahópur HTÍ sé fjölbreyttur og gjarnan jaðarsettur.

Undir yfirlýsinguna rita forsvarsmenn Heyrnarhjálpar, ÖBÍ, Félags heyrnarlausra, Breiðra brosa, Foreldra- og styrktarfélags heyrnarlausra, Máleflis, Landssambands eldri borgara, Hlíðaskóla, Sólborgar, Félags íslenskra háls-, nef- og eyrnalækna, Félags heyrnarfræðinga, Félags talmeinafræðinga á Íslandi og Umhyggju.

Vísir greindi frá því á dögunum að um 20.000 Íslendingar glímdu við heyrnarskerðingu. Tvö þúsund manns biðu eftir þjónustu, þar af tæplega 300 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×