Norski framherjinn fór meiddur af velli í hálfleik er Manchester City mætti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær. Englands- og Evrópumeistararnir lentu þó ekki í neinum vandræðum án síns helsta markaskorara og unnu öruggan 6-1 sigur.
Haaland snéri sig á ökkla í fyrri hálfleik gegn Bournemouth og þurfti því að fara af velli, en Pep Guardiola, þjálfari City, segist ekki vita hvort framherjinn verði klár í slaginn á morgun.
„Við munum ræða við læknateymið, en ég veit það ekki,“ sagði Guardiola, aðspurður að því hvort Haaland yrði með á morgun.
„Ég mun hlusta á læknana. Ef þeir segja að hann sé klár og laus við verki þá mun ég íhuga það að láta hann spila. Hann sagði mér dag að honum liði mun betur en strax eftir leik,“ bætti Guardiola við.
Haaland hefur skorað 13 mörk í öllum keppnum fyrir Manchester City á tímabilinu og tók þátt í hluta af opinni æfingu liðsins í dag.
Erling Haaland is in training as Man City prepare to face Young Boys in the Champions League ✅🚨 pic.twitter.com/57BiEZe0of
— Sky Sports News (@SkySportsNews) November 6, 2023
Leikur Manchester City og Young Boys hefst klukkan 20:00 annað kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.