NFL-deildin hefur verið dugleg að færa út kvíarnar undanfarin ár og yfirmenn deildarinnar vilja auka sýnileika íþróttarinnar á alþjóðavísu. Þannig hafa leikir verið spilaðir í Frankfurt í Þýskalandi og á heimavelli enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham Hotspur í London.
Godell segir að deildin sé um þessar mundir að skoða nýjan markað fyrir deildina. Einn leikur á næsta tímabili muni fara fram í nýju landi og segir hann að deildin sé aðallega að horfa til Spánar eða Brasilíu.
„Við viljum stækka og verða alþjóðleg íþrótt, þannig að þá þurfum við augljóslega að horfa á aðra markaði,“ sagði Godell um áform deildarinnar, en nú þegar hafa þrír leikir á yfirstandandi tímabili farið fram í London. Einn af tveimur fyrirhuguðum leikjum á tímabilinu hefur verið leikinn í Frankfurt.
Þá hafa einnig verið leiknir NFL-leikir í Mexíkó frá árinu 2016, en þó með hléum.
„Við erum aðallega að horfa til Spánar eða Brasilíu. Við munum færa okkur yfir á nýjan markað á næsta tímabili, en við erum enn að reyna að velja á milli þessara tveggja landa.“