Lífið breyttist vegna gáleysis leigubílstjóra Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar 18. nóvember 2023 09:01 Fjögur ár eru liðin frá slysinu sem breytti lífi Þórunnar. Vísir/RAX Þórunn Óskarsdóttir lenti í alvarlegu bílslysi á Reykjanesbraut fyrir fjórum árum, þegar hún var farþegi í leigubíl ásamt tveimur öðrum. Dómstólar komust síðar að þeirri niðurstöðu að slysið hefði orsakast af stórfelldu gáleysi leigubílstjórans og var hann sakfelldur fyrir brot á umferðar- og hegningarlögum. Þórunn telur dóm héraðsdóms þó of vægan en hún glímir enn í dag við margvíslegar líkamlegar og andlegar afleiðingar af slysinu. Hún er annar stofnenda hópsins Á Batavegi en um er að ræða hagsmunahóp fólks sem tekst á við langvarandi afleiðingar umferðarslysa. Hékk í beltinu Síðdegis þann 1.nóvember árið 2019 birtist eftirfarandi frétt á Vísi: „Umferðarslys varð á Reykjanesbraut rétt vestan við mislæg gatnamót við Krísuvíkurveg. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru sjö sjúkrabílar og tveir dælubílar sendir á vettvang. Tíu voru fluttir á slysadeild, flestir með minniháttar meiðsli, en einn eða tveir eru sagðir með alvarlegri áverka.“ Fram kom að tvær bifreiðar hefðu lenti í slysinu. Í öðrum bílnum var Þórunn farþegi. „Ég var nýkomin til Íslands úr vinnuferð í Hollandi ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Ég og þrír aðrir vinnufélagar tókum saman leigubíl frá Keflavíkurflugvelli og ég sat aftur í, í miðjunni.“ segir Þórunn. Hún segir að strax í upphafi bílferðarinnar hafi hún orðið vör við hegðun hjá leigubílstjóranum sem hafi ekki beinlínis verið traustvekjandi. Hann hafi til að mynda ekki verið í bílbelti. „Við byrjuðum á því að skutla einum af vinnufélögum mínum heim og næsta stopp var síðan heima hjá mér. Þegar við ætluðum að fara frá Völlunum í Hafnarfirði og aftur upp á Reykjanesbrautina, þá kom í ljós að aðreinin var lokuð og þá tók bílstjórinn þá ákvörðun að fara upp á brautina í gagnstæða átt. Að hans sögn ætlaði hann að keyra út að álverinu og til baka, en hann tekur síðan þessa afdrifaríku ákvörðun til að spara sér tíma.“ Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að bílstjórinn hafi ekið bifreiðinni vestur Reykjanesbraut, móts við mislæg gatamót við Krísuvíkurveg, án þess að gæta nægilegrar aðgæslu og varúðar og gegn umferðarmerkjum, þegar hann ætlaði að taka U-beygju yfir á akreinina fyrir umferð á móti, austur Reykjanesbraut, þar sem heil óbrotin miðlína er. Afleiðingarnar voru þær að hann ók í veg fyrir bifreið sem ekið var á Reykjanesbrautinni, sem leiddi til þess að leigubílinn kastaðist yfir á öfugan vegarhelming miðað við akstursstefnu og valt að endingu á hægri hliðina. Þórunn segist enn muna eftir skellinum þegar hin bifreiðin keyrði á ógnarhraða inn í hliðina á leigubílnum, bílstjóramegin. Vinnufélagi hennar sem sat vinstra megin í bílnum fékk mesta höggið og bílstjórinn rotaðist, en hvorugur var í belti. Sjálf missti Þórunn meðvitund í stutta stund, en hún og vinnufélagi hennar sem sat í framsætinu höfðu bæði sett á sig bílbelti. „Það næsta sem ég man eftir er að ég er hangandi í beltinu, bílinn kominn á hliðina og glerbrot út um allt. Samstarfsmaður minn í framsætinu var með bílstjórann meðvitundarlausan í fanginu og kallaði aftur í til okkar og spurði hvort við værum á lífi. Ég náði einhvern veginn að losa mig og koma fótunum undir mig. Í eitt augnablik náði ég að standa upp en fann að ég varð máttlaus í fótunum, það sveif að mér og ég var alveg að líða út af. Samstarfsfélagi minn, sem var líka staðinn upp, studdi við mig og vegfarandi sem var komin upp við bílinn hvatti mig til að halda meðvitund og ekki detta út.“ Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari Vísis af vettvangi slyssins. Vísir/Egill Þórunn og hinir einstaklingarnir níu voru öll flutt á bráðamóttöku í kjölfarið en Þórunn og samstarfsfélagi hennar sem var með henni aftur í reyndust vera með alvarlegustu áverkana. Þórunn reyndist vera með tvö gegnum brot á næst efsta hálslið, og tognun og ofreynslu á hálshrygg. Það gefur að skilja að höfuðið hefur kastast harkarlega til og telur Þórunn að ýmsir hliðaráverkar hafi verið vangreindir og ómeðhöndlaðir. „Það er þekkt í háorkuslysum sem þessum að áverkar séu vangreindir. Þessi alvarlegi hálshnykkur hefur að öllum líkindum valdið heilahristingi, skaða á vöðvum, hryggþófum, liðböndum og öðrum mjúkvef. Að þessu var ekki hugað á nokkrum tímapunkti í ferlinu.“ Vísir Egill Þórunn dvaldi í rúma viku á bæklunarskurðdeild áður en hún var send heim, með stífa spelku frá rifbeinum að hnakka. Hún er gift og þriggja barna móðir og þurfti fyrst um sinn að reiða sig á dyggan stuðning eiginmannsins og nánustu aðstandenda til að sjá um sjálfa sig, börnin og heimilið. Þau hjónin höfðu nýverið fest kaup á húsi þegar slysið varð og voru að fara að undirbúa flutninga, en skiljanlega fóru þær áætlanir nokkuð úr skorðum. „Fyrst um sinn var ég algjörlega ósjálfbjarga og þurfti umönnun allan sólarhringinn, við að setjast upp, við að komast á salerni og við að borða. Mér fannst ég engan veginn tilbúin til að útskrifast af sjúkrahúsinu. Það varð mér eiginlega annað áfall að upplifa mig senda eina heim, með verkjalyf og tíma í endurkomu á göngudeild nokkrum vikum seinna.“ Þurfti að minnka kröfurnar Bataferlið hefur verið hægt og sveiflukennt,og stendur ennþá yfir í dag, fjórum árum síðar. Þórunn hefur glímt við daglega verki í hálsi, höfði, andliti, efra baki og handlegg. Tæpu hálfu ári eftir slysið gerði hún tilraun til að snúa aftur til vinnu en það varð fljótlega ljóst að starfsorkan og úthaldið var ekki nægt til endurkomu. Hún var greind með 35 prósent varanlega örorku. „Seinustu fjögur ár hafa meira og minna verið framfarir og bakslög á víxl. Mig langaði alltaf að fara að vinna aftur, hitta fólkið mitt og halda áfram með verkefnin mín. Ég gerði margar tilraunir til að snúa aftur í vinnuna. En það gekk bara ekki upp, það voru of margar hindranir, bæði líkamlegir verkir og svo er ég mjög næm fyrir áreiti; ljósi, hljóðum og hröðum hreyfingum. Ég hef lítið úthald í margmenni.“ Undanfarin fjögur ár hefur Þórunn sótt meðferðir hjá sjúkraþjálfurum, leitað aðstoðar á Reykjalundi og hjá Virk til að takast á við afleiðingar slyssins. En slysið hefur skiljanlega haft áhrif á andlegu hliðina og hefur Þórunn þurft að takast á við einkenni áfallastreitu sem enn reynast henni hindrun á tíðum. Þórunn tekur fram að allt það fagfólk sem hún hefur hitt hefur reynst henni vel og er hún þeim ævinlega þakklát. Þórunn hefur aukið starfshlutfallið hægt og rólega eftir slysið.Vísir/RAX „Eitt af því sem ég hef þurft að gera er að slaka á mörgum af þeim kröfum sem ég hef gert til mín, hvað varðar sjálfa mig og fjölskylduna og þess háttar. Ég hef þurft að lækka standardinn alveg töluvert mikið. Ég hef lært að sýna sjálfri smér mildi og skilning.“ Þórunn bendir jafnframt á að almannatryggingakerfið sé síður en svo stuðningur fyrir einstakling í hennar stöðu. Hún var í fullri vinnu og tiltölulega tekjuhá fyrir slysið. Takmarkanir á slysabótum og tekjumörk gera það að verkum að fjárhagslega tjónið verður aldrei bætt nema að um hálfu leyti. Hún ákvað nýlega að hætta á sínum gamla vinnustað en er núna í dag komin í 50 prósent starfshlutfall á minni vinnustað þar sem hún unir sér vel. „Þetta er búið að vera rosalega mikil barátta, en það er ofboðslega gott að geta farið í vinnu og dreift huganum. Ég hef átt svo erfitt með að upplifa mig sem sjúkling og næ ekki utan um það að skilgreina mig sem manneskju sem getur ekki unnið og er upp á aðra komin.“ Hlægilega lágar miskabætur Leigubílstjórinn sem keyrði Þórunni og samstarfsfélaga hennar þennan örlagaríka dag var seinna meir ákærður fyrir hegningar-og umferðarlagabrot. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi hans hefði falið í sér „stórfellt gáleysi“ og verið meginorsök árekstrarins. Leigubílstjórinn var dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi en var ekki sviptur ökurétti. Þá var hann dæmdur til að greiða Þórunni og hinum farþegunum misháar miskabætur. Þórunn og einn annar farþegi fengu greiddar hæstu miskabæturnar; eina milljón króna. Þórunn er afar ósátt við niðurstöðuna og segir viðurlögin fyrir bílstjórann blátt áfram hlægileg. Það hafi verið sárt að sjá hann setjast undir stýri á leigubílnum fyrir utan dómssalinn, sem enn eitt áfallið hvernig dómskerfið hafi brugðist. Samkvæmt lögum um leigubílaakstur sem tóku gildi í apríl á þessu ári ber þeim sem sækir um atvinnuleyfi að hafa „gott orðspor.“ „ Við mat á orðspori ber að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að starfa sem leigubifreiðastjóri eða gefur til kynna að viðkomandi njóti ekki nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Hafi brot verið smávægilegt eða fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dóms eða frá viðurlagaákvörðun er heimilt að veita leyfi. Hafi brot verið stórfellt og varðað við XXIII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum frá uppkvaðningu dóms. Hafi brotið varðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi. Samgöngustofu er heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að tiltekin brot eða tilteknir brotaflokkar skuli ekki hafa áhrif á mat á góðu orðspori,“ segir í fimmtu grein laganna. Þórunn kveðst að hafa sent fyrirspurn til Samgöngustofu á dögunum og fengið þær upplýsingar að samkvæmt nýjum lögum, sem varða úrbætur á leyfisveitingum, er þeim atvinnubílstjórum sem gerast brotlegir við tiltekna kafla í hegningarlögum nú skylt að tilkynna sjálfir um brot sín til Samgöngustofu. Þessi lög höfðu ekki verið tekin í gildi þegar dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness,í ágúst árið 2021, og þar sem að leigubílstjórinn var ekki sviptur ökuréttindum gat hann óhindrað haldið áfram að sinna leigubílaakstri. Þórunn hefur óskað eftir upplýsingum um hvernig lögunum sé framfylgt hjá Samgöngustofu. Hún segir nauðsynlegt að það sé skýrt gefið fram hvernig málum er háttað varðandi leyfisveitingar, sem og virkat eftirlit og atvikaskráningu. Henni þykir einnig orka tvímælis að stólað sé á brotamennina sjálfa til að tilkynna brot sín. Þarna sé tækifæri til umbóta og mun hún beita sér fyrir því að svo megi verða. Þórunn rak sig á það á sínum tíma að það var enginn stuðningshópur til staðar fyrir þá sem eru að kljást við alvarlegar afleiðingar umferðarslysa.Vísir/RAX Stofnuðu saman stuðningshóp „Þegar ég kom hausnum upp úr mestu þokunni þá langaði mig afskaplega mikið að tengjast öðrum sem hafa lent í svipuðu. Það var svo erfitt að rata í gegnum þetta allt saman. Mig vantaði ráð, hvatningu og leiðbeiningar. Mér fannst ég alein, og fór þess vegna að leita að mínu samferðafólki í þessu,“ segir Þórunn. Eftir mikla og langa leit komst hún í kynni við Önnu Lindu Bjarnadóttur, sem varð fyrir alvarlegum árekstri á Arnarnesbrú þann 28.nóvember árið 2020 vegna ölvunaraksturs ókunnugrar manneskju. Í kjölfarið stofnuðu þær hóp á Facebook sem þær nefndu Á Batavegi. Þannig varð til umræðuvettvangur fyrir einstaklinga sem deila þeirri reynslu að hafa hlotið alvarlega áverka í umferðarslysi. Í dag eru rúmlega 100 meðlimir í hópnum og fer þeim fjölgandi. Þórunn segir að allir þeir sem búi að svona reynslu séu velkomnir í hópinn. Líkt og Þórunn bendir á eru margvíslegir stuðningshópar í boði fyrir þá sem þjást af hinum og þessum sjúkdómum eða glíma við hina og þessa erfiðleika, en það hefur hingað til ekki verið boðið upp á sértækan hóp fyrir þá sem eru að kljást við afleiðingar af umferðarslysum. Auk facebook hópsins hafa þær Þórunn og Anna Linda staðið fyrir mánaðarlegum hittingum þar sem fólki gefst kostur á því að koma saman og deila reynslu sinni. „Við vorum báðar búnar að komast að því að það var enginn sambærilegur hópur til á Íslandi. Okkur langaði að skapa þennan vettvang, búa til stuðningsnet fyrir fólk í þessum aðstæðum. Það eru svo margir í þessum sporum sem þurfa aðstoð og stuðning við að afla upplýsinga og fóta sig áfram í bataferlinu. Við upplifðum báðar margskonar brotalamir í þessum svokölluðu „ kerfum” sem eiga að grípa fólk í svona aðstæðum. Við sjáum svo mörg tækifæri til að gera betur.“ Þann 28.nóvember næstkomandi, á slysdegi Önnu Lindu munu þær stöllur standa fyrir viðburði í Sveinatungu á Garðatorgi- um málefni fólks á batavegi eftir alvarleg umferðarslys. Viðburðurinn er hugsaður fyrir tjónþola, aðstandendur, fagaðila í endurhæfingu, starfsfólk ríkisstofnana, félagasamtök og áhugafólk en Þórunn tekur fram að allir séu að sjálfsögðu velkomnir. „Með þessum viðburði vonumst við fyrst og fremst til að vekja athygli á okkar málstað, og á hópnum,“ segir Þórunn en Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar mun flytja erindið „Komum heil heim” þetta kvöld. Birna Dröfn Birgisdóttir, doktorsnemi og tjónþoli mun einnig flytja erindi um „Hraðbrautir heilans” og þá munu þær Þórunn og Anna Linda báðar deila sínum lærdómi, reynslusögum og því sem þær brenna fyrir. Að sögn Þórunnar verður áfram boðið upp á mánaðarlega hittinga, þar sem einstaklingar geta deilt upplifunum sínum, leitað ráða og fengið stuðning. Öflugir meðlimir hópsins munu líka halda áfram að berjast fyrir hagsmunum sínum og tjónþolum framtíðarinnar. Þau vilja jafnframt ýta enn frekar undir umræður um öryggi í umferðinni og grafalvarlegar afleiðingar ölvunaraksturs. Þórunn er þakklát fyrir lífið í dag.Vísir/RAX Stuttu eftir slysið birti Þórunn færslu á facebook þar sem hún greindi frá aðstæðum sínum og endaði hún færsluna á þessum orðum: „Ég er þakklát fyrir að vera á lífi, með mátt og tilfinningu alls staðar. En mest þakklát er ég fyrir fólkið mitt sem sannarlega stendur með mér.“ Hún hefur haldið fast í æðruleysið, þó það hafi á köflum reynst erfitt. Hún tekur einn dag í einu. „Sorgin er alls konar og misjöfn, en hún gerir vart við sig flesta daga. Ég er orðin ansi góð í að nýta mér alls konar bjargráð og hef lært svakalega mikið á þessari vegferð. Mér tekst vonandi að miðla einhverju af því til strákana minna og nýta þessa reynslu þannig. Ég hef allavega staðfest að þolinmæðin mín, seigla og þrautseigja er yfir meðallagi!“ Hér má finna facebooksíðu hópsins á Batavegi. Hér má finna allar nánari upplýsingar um viðburðinn þann 28.nóvember næstkomandi. Samgönguslys Samgöngur Dómsmál Helgarviðtal Leigubílar Hafnarfjörður Mest lesið Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Innlent Farþegaflugvél hrapaði í Kasakstan Erlent Þau kvöddu á árinu 2024 Erlent Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Innlent Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Innlent Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Innlent Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Innlent Appelsínugular viðvaranir og vegir víða lokaðir Veður Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Innlent Dyr Péturskirkjunnar standa opnar Erlent Fleiri fréttir Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Gleðileg jól, kæru lesendur Vegir víða um land gætu lokast með litlum fyrirvara Varað við ferðalögum víða um land Margir á síðasta snúningi með jólapakkana Í sumum tilfellum eina hátíðlega stund dagsins Men Tolla komið í leitirnar: „Sannkölluð jólasaga“ Vonskuveður og þau sem eru á síðasta snúningi Fjúgandi hálka í kirkjugörðum Reykjavíkur Stolið hálsmen Tolla dúkkaði upp tuttugu árum síðar Nóg að gera hjá slökkviliðinu í nótt Mette óskaði Kristrúnu til hamingju Aðfangadagur: Hvar er opið og hve lengi? „Skiptir sannleikurinn engu máli?“ Fjölmenni gekk fyrir frið í miðborginni Rútur skildar eftir á Holtavörðuheiði og leiðinni lokað Vísnabók gefin til nýrra Hvergerðinga frá Hveragerðisbæ Vandræðamál sem ríkisstjórnin fær í arf Komust með flugvélinni á ögurstundu Stærstu mál stjórnarinnar bíða til 2026 Mínútu fyrr á ferðinni væri Tómas allur Allt kapp lagt á að landsmenn komist heim fyrir jól Sjá meira
Þórunn telur dóm héraðsdóms þó of vægan en hún glímir enn í dag við margvíslegar líkamlegar og andlegar afleiðingar af slysinu. Hún er annar stofnenda hópsins Á Batavegi en um er að ræða hagsmunahóp fólks sem tekst á við langvarandi afleiðingar umferðarslysa. Hékk í beltinu Síðdegis þann 1.nóvember árið 2019 birtist eftirfarandi frétt á Vísi: „Umferðarslys varð á Reykjanesbraut rétt vestan við mislæg gatnamót við Krísuvíkurveg. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru sjö sjúkrabílar og tveir dælubílar sendir á vettvang. Tíu voru fluttir á slysadeild, flestir með minniháttar meiðsli, en einn eða tveir eru sagðir með alvarlegri áverka.“ Fram kom að tvær bifreiðar hefðu lenti í slysinu. Í öðrum bílnum var Þórunn farþegi. „Ég var nýkomin til Íslands úr vinnuferð í Hollandi ásamt nokkrum samstarfsmönnum. Ég og þrír aðrir vinnufélagar tókum saman leigubíl frá Keflavíkurflugvelli og ég sat aftur í, í miðjunni.“ segir Þórunn. Hún segir að strax í upphafi bílferðarinnar hafi hún orðið vör við hegðun hjá leigubílstjóranum sem hafi ekki beinlínis verið traustvekjandi. Hann hafi til að mynda ekki verið í bílbelti. „Við byrjuðum á því að skutla einum af vinnufélögum mínum heim og næsta stopp var síðan heima hjá mér. Þegar við ætluðum að fara frá Völlunum í Hafnarfirði og aftur upp á Reykjanesbrautina, þá kom í ljós að aðreinin var lokuð og þá tók bílstjórinn þá ákvörðun að fara upp á brautina í gagnstæða átt. Að hans sögn ætlaði hann að keyra út að álverinu og til baka, en hann tekur síðan þessa afdrifaríku ákvörðun til að spara sér tíma.“ Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að bílstjórinn hafi ekið bifreiðinni vestur Reykjanesbraut, móts við mislæg gatamót við Krísuvíkurveg, án þess að gæta nægilegrar aðgæslu og varúðar og gegn umferðarmerkjum, þegar hann ætlaði að taka U-beygju yfir á akreinina fyrir umferð á móti, austur Reykjanesbraut, þar sem heil óbrotin miðlína er. Afleiðingarnar voru þær að hann ók í veg fyrir bifreið sem ekið var á Reykjanesbrautinni, sem leiddi til þess að leigubílinn kastaðist yfir á öfugan vegarhelming miðað við akstursstefnu og valt að endingu á hægri hliðina. Þórunn segist enn muna eftir skellinum þegar hin bifreiðin keyrði á ógnarhraða inn í hliðina á leigubílnum, bílstjóramegin. Vinnufélagi hennar sem sat vinstra megin í bílnum fékk mesta höggið og bílstjórinn rotaðist, en hvorugur var í belti. Sjálf missti Þórunn meðvitund í stutta stund, en hún og vinnufélagi hennar sem sat í framsætinu höfðu bæði sett á sig bílbelti. „Það næsta sem ég man eftir er að ég er hangandi í beltinu, bílinn kominn á hliðina og glerbrot út um allt. Samstarfsmaður minn í framsætinu var með bílstjórann meðvitundarlausan í fanginu og kallaði aftur í til okkar og spurði hvort við værum á lífi. Ég náði einhvern veginn að losa mig og koma fótunum undir mig. Í eitt augnablik náði ég að standa upp en fann að ég varð máttlaus í fótunum, það sveif að mér og ég var alveg að líða út af. Samstarfsfélagi minn, sem var líka staðinn upp, studdi við mig og vegfarandi sem var komin upp við bílinn hvatti mig til að halda meðvitund og ekki detta út.“ Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari Vísis af vettvangi slyssins. Vísir/Egill Þórunn og hinir einstaklingarnir níu voru öll flutt á bráðamóttöku í kjölfarið en Þórunn og samstarfsfélagi hennar sem var með henni aftur í reyndust vera með alvarlegustu áverkana. Þórunn reyndist vera með tvö gegnum brot á næst efsta hálslið, og tognun og ofreynslu á hálshrygg. Það gefur að skilja að höfuðið hefur kastast harkarlega til og telur Þórunn að ýmsir hliðaráverkar hafi verið vangreindir og ómeðhöndlaðir. „Það er þekkt í háorkuslysum sem þessum að áverkar séu vangreindir. Þessi alvarlegi hálshnykkur hefur að öllum líkindum valdið heilahristingi, skaða á vöðvum, hryggþófum, liðböndum og öðrum mjúkvef. Að þessu var ekki hugað á nokkrum tímapunkti í ferlinu.“ Vísir Egill Þórunn dvaldi í rúma viku á bæklunarskurðdeild áður en hún var send heim, með stífa spelku frá rifbeinum að hnakka. Hún er gift og þriggja barna móðir og þurfti fyrst um sinn að reiða sig á dyggan stuðning eiginmannsins og nánustu aðstandenda til að sjá um sjálfa sig, börnin og heimilið. Þau hjónin höfðu nýverið fest kaup á húsi þegar slysið varð og voru að fara að undirbúa flutninga, en skiljanlega fóru þær áætlanir nokkuð úr skorðum. „Fyrst um sinn var ég algjörlega ósjálfbjarga og þurfti umönnun allan sólarhringinn, við að setjast upp, við að komast á salerni og við að borða. Mér fannst ég engan veginn tilbúin til að útskrifast af sjúkrahúsinu. Það varð mér eiginlega annað áfall að upplifa mig senda eina heim, með verkjalyf og tíma í endurkomu á göngudeild nokkrum vikum seinna.“ Þurfti að minnka kröfurnar Bataferlið hefur verið hægt og sveiflukennt,og stendur ennþá yfir í dag, fjórum árum síðar. Þórunn hefur glímt við daglega verki í hálsi, höfði, andliti, efra baki og handlegg. Tæpu hálfu ári eftir slysið gerði hún tilraun til að snúa aftur til vinnu en það varð fljótlega ljóst að starfsorkan og úthaldið var ekki nægt til endurkomu. Hún var greind með 35 prósent varanlega örorku. „Seinustu fjögur ár hafa meira og minna verið framfarir og bakslög á víxl. Mig langaði alltaf að fara að vinna aftur, hitta fólkið mitt og halda áfram með verkefnin mín. Ég gerði margar tilraunir til að snúa aftur í vinnuna. En það gekk bara ekki upp, það voru of margar hindranir, bæði líkamlegir verkir og svo er ég mjög næm fyrir áreiti; ljósi, hljóðum og hröðum hreyfingum. Ég hef lítið úthald í margmenni.“ Undanfarin fjögur ár hefur Þórunn sótt meðferðir hjá sjúkraþjálfurum, leitað aðstoðar á Reykjalundi og hjá Virk til að takast á við afleiðingar slyssins. En slysið hefur skiljanlega haft áhrif á andlegu hliðina og hefur Þórunn þurft að takast á við einkenni áfallastreitu sem enn reynast henni hindrun á tíðum. Þórunn tekur fram að allt það fagfólk sem hún hefur hitt hefur reynst henni vel og er hún þeim ævinlega þakklát. Þórunn hefur aukið starfshlutfallið hægt og rólega eftir slysið.Vísir/RAX „Eitt af því sem ég hef þurft að gera er að slaka á mörgum af þeim kröfum sem ég hef gert til mín, hvað varðar sjálfa mig og fjölskylduna og þess háttar. Ég hef þurft að lækka standardinn alveg töluvert mikið. Ég hef lært að sýna sjálfri smér mildi og skilning.“ Þórunn bendir jafnframt á að almannatryggingakerfið sé síður en svo stuðningur fyrir einstakling í hennar stöðu. Hún var í fullri vinnu og tiltölulega tekjuhá fyrir slysið. Takmarkanir á slysabótum og tekjumörk gera það að verkum að fjárhagslega tjónið verður aldrei bætt nema að um hálfu leyti. Hún ákvað nýlega að hætta á sínum gamla vinnustað en er núna í dag komin í 50 prósent starfshlutfall á minni vinnustað þar sem hún unir sér vel. „Þetta er búið að vera rosalega mikil barátta, en það er ofboðslega gott að geta farið í vinnu og dreift huganum. Ég hef átt svo erfitt með að upplifa mig sem sjúkling og næ ekki utan um það að skilgreina mig sem manneskju sem getur ekki unnið og er upp á aðra komin.“ Hlægilega lágar miskabætur Leigubílstjórinn sem keyrði Þórunni og samstarfsfélaga hennar þennan örlagaríka dag var seinna meir ákærður fyrir hegningar-og umferðarlagabrot. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi hans hefði falið í sér „stórfellt gáleysi“ og verið meginorsök árekstrarins. Leigubílstjórinn var dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi en var ekki sviptur ökurétti. Þá var hann dæmdur til að greiða Þórunni og hinum farþegunum misháar miskabætur. Þórunn og einn annar farþegi fengu greiddar hæstu miskabæturnar; eina milljón króna. Þórunn er afar ósátt við niðurstöðuna og segir viðurlögin fyrir bílstjórann blátt áfram hlægileg. Það hafi verið sárt að sjá hann setjast undir stýri á leigubílnum fyrir utan dómssalinn, sem enn eitt áfallið hvernig dómskerfið hafi brugðist. Samkvæmt lögum um leigubílaakstur sem tóku gildi í apríl á þessu ári ber þeim sem sækir um atvinnuleyfi að hafa „gott orðspor.“ „ Við mat á orðspori ber að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að starfa sem leigubifreiðastjóri eða gefur til kynna að viðkomandi njóti ekki nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Hafi brot verið smávægilegt eða fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dóms eða frá viðurlagaákvörðun er heimilt að veita leyfi. Hafi brot verið stórfellt og varðað við XXIII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum frá uppkvaðningu dóms. Hafi brotið varðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi. Samgöngustofu er heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að tiltekin brot eða tilteknir brotaflokkar skuli ekki hafa áhrif á mat á góðu orðspori,“ segir í fimmtu grein laganna. Þórunn kveðst að hafa sent fyrirspurn til Samgöngustofu á dögunum og fengið þær upplýsingar að samkvæmt nýjum lögum, sem varða úrbætur á leyfisveitingum, er þeim atvinnubílstjórum sem gerast brotlegir við tiltekna kafla í hegningarlögum nú skylt að tilkynna sjálfir um brot sín til Samgöngustofu. Þessi lög höfðu ekki verið tekin í gildi þegar dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness,í ágúst árið 2021, og þar sem að leigubílstjórinn var ekki sviptur ökuréttindum gat hann óhindrað haldið áfram að sinna leigubílaakstri. Þórunn hefur óskað eftir upplýsingum um hvernig lögunum sé framfylgt hjá Samgöngustofu. Hún segir nauðsynlegt að það sé skýrt gefið fram hvernig málum er háttað varðandi leyfisveitingar, sem og virkat eftirlit og atvikaskráningu. Henni þykir einnig orka tvímælis að stólað sé á brotamennina sjálfa til að tilkynna brot sín. Þarna sé tækifæri til umbóta og mun hún beita sér fyrir því að svo megi verða. Þórunn rak sig á það á sínum tíma að það var enginn stuðningshópur til staðar fyrir þá sem eru að kljást við alvarlegar afleiðingar umferðarslysa.Vísir/RAX Stofnuðu saman stuðningshóp „Þegar ég kom hausnum upp úr mestu þokunni þá langaði mig afskaplega mikið að tengjast öðrum sem hafa lent í svipuðu. Það var svo erfitt að rata í gegnum þetta allt saman. Mig vantaði ráð, hvatningu og leiðbeiningar. Mér fannst ég alein, og fór þess vegna að leita að mínu samferðafólki í þessu,“ segir Þórunn. Eftir mikla og langa leit komst hún í kynni við Önnu Lindu Bjarnadóttur, sem varð fyrir alvarlegum árekstri á Arnarnesbrú þann 28.nóvember árið 2020 vegna ölvunaraksturs ókunnugrar manneskju. Í kjölfarið stofnuðu þær hóp á Facebook sem þær nefndu Á Batavegi. Þannig varð til umræðuvettvangur fyrir einstaklinga sem deila þeirri reynslu að hafa hlotið alvarlega áverka í umferðarslysi. Í dag eru rúmlega 100 meðlimir í hópnum og fer þeim fjölgandi. Þórunn segir að allir þeir sem búi að svona reynslu séu velkomnir í hópinn. Líkt og Þórunn bendir á eru margvíslegir stuðningshópar í boði fyrir þá sem þjást af hinum og þessum sjúkdómum eða glíma við hina og þessa erfiðleika, en það hefur hingað til ekki verið boðið upp á sértækan hóp fyrir þá sem eru að kljást við afleiðingar af umferðarslysum. Auk facebook hópsins hafa þær Þórunn og Anna Linda staðið fyrir mánaðarlegum hittingum þar sem fólki gefst kostur á því að koma saman og deila reynslu sinni. „Við vorum báðar búnar að komast að því að það var enginn sambærilegur hópur til á Íslandi. Okkur langaði að skapa þennan vettvang, búa til stuðningsnet fyrir fólk í þessum aðstæðum. Það eru svo margir í þessum sporum sem þurfa aðstoð og stuðning við að afla upplýsinga og fóta sig áfram í bataferlinu. Við upplifðum báðar margskonar brotalamir í þessum svokölluðu „ kerfum” sem eiga að grípa fólk í svona aðstæðum. Við sjáum svo mörg tækifæri til að gera betur.“ Þann 28.nóvember næstkomandi, á slysdegi Önnu Lindu munu þær stöllur standa fyrir viðburði í Sveinatungu á Garðatorgi- um málefni fólks á batavegi eftir alvarleg umferðarslys. Viðburðurinn er hugsaður fyrir tjónþola, aðstandendur, fagaðila í endurhæfingu, starfsfólk ríkisstofnana, félagasamtök og áhugafólk en Þórunn tekur fram að allir séu að sjálfsögðu velkomnir. „Með þessum viðburði vonumst við fyrst og fremst til að vekja athygli á okkar málstað, og á hópnum,“ segir Þórunn en Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar mun flytja erindið „Komum heil heim” þetta kvöld. Birna Dröfn Birgisdóttir, doktorsnemi og tjónþoli mun einnig flytja erindi um „Hraðbrautir heilans” og þá munu þær Þórunn og Anna Linda báðar deila sínum lærdómi, reynslusögum og því sem þær brenna fyrir. Að sögn Þórunnar verður áfram boðið upp á mánaðarlega hittinga, þar sem einstaklingar geta deilt upplifunum sínum, leitað ráða og fengið stuðning. Öflugir meðlimir hópsins munu líka halda áfram að berjast fyrir hagsmunum sínum og tjónþolum framtíðarinnar. Þau vilja jafnframt ýta enn frekar undir umræður um öryggi í umferðinni og grafalvarlegar afleiðingar ölvunaraksturs. Þórunn er þakklát fyrir lífið í dag.Vísir/RAX Stuttu eftir slysið birti Þórunn færslu á facebook þar sem hún greindi frá aðstæðum sínum og endaði hún færsluna á þessum orðum: „Ég er þakklát fyrir að vera á lífi, með mátt og tilfinningu alls staðar. En mest þakklát er ég fyrir fólkið mitt sem sannarlega stendur með mér.“ Hún hefur haldið fast í æðruleysið, þó það hafi á köflum reynst erfitt. Hún tekur einn dag í einu. „Sorgin er alls konar og misjöfn, en hún gerir vart við sig flesta daga. Ég er orðin ansi góð í að nýta mér alls konar bjargráð og hef lært svakalega mikið á þessari vegferð. Mér tekst vonandi að miðla einhverju af því til strákana minna og nýta þessa reynslu þannig. Ég hef allavega staðfest að þolinmæðin mín, seigla og þrautseigja er yfir meðallagi!“ Hér má finna facebooksíðu hópsins á Batavegi. Hér má finna allar nánari upplýsingar um viðburðinn þann 28.nóvember næstkomandi.
Samgönguslys Samgöngur Dómsmál Helgarviðtal Leigubílar Hafnarfjörður Mest lesið Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Innlent Farþegaflugvél hrapaði í Kasakstan Erlent Þau kvöddu á árinu 2024 Erlent Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Innlent Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Innlent Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Innlent Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Innlent Appelsínugular viðvaranir og vegir víða lokaðir Veður Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Innlent Dyr Péturskirkjunnar standa opnar Erlent Fleiri fréttir Fagna jólunum í Betlehem í skugga stríðs Hellisheiði og Þrengsli opna ekki fyrr en á morgun Aðeins ein flugvél lent í Keflavík í dag Útköll víða vegna óveðurs Erfiður tími þegar dóttirin kom út sem trans Gott að geta sagt „þú ert hjartanlega velkominn“ Appelsínugular viðvaranir og jólaboð hjá Hjálpræðishernum Á vaktinni við lokunarpósta alla jólanótt Tveir vörðu jólanótt í fangaklefa Gleðileg jól, kæru lesendur Vegir víða um land gætu lokast með litlum fyrirvara Varað við ferðalögum víða um land Margir á síðasta snúningi með jólapakkana Í sumum tilfellum eina hátíðlega stund dagsins Men Tolla komið í leitirnar: „Sannkölluð jólasaga“ Vonskuveður og þau sem eru á síðasta snúningi Fjúgandi hálka í kirkjugörðum Reykjavíkur Stolið hálsmen Tolla dúkkaði upp tuttugu árum síðar Nóg að gera hjá slökkviliðinu í nótt Mette óskaði Kristrúnu til hamingju Aðfangadagur: Hvar er opið og hve lengi? „Skiptir sannleikurinn engu máli?“ Fjölmenni gekk fyrir frið í miðborginni Rútur skildar eftir á Holtavörðuheiði og leiðinni lokað Vísnabók gefin til nýrra Hvergerðinga frá Hveragerðisbæ Vandræðamál sem ríkisstjórnin fær í arf Komust með flugvélinni á ögurstundu Stærstu mál stjórnarinnar bíða til 2026 Mínútu fyrr á ferðinni væri Tómas allur Allt kapp lagt á að landsmenn komist heim fyrir jól Sjá meira