Já, desember er runninn upp og nú mæðir á mörgum að gera margt; Vinna, þrífa, baka og fleira heima fyrir, jólagjafakaup og svo framvegis.
Á vinnustöðum er álag auðvitað mismikið í þessum mánuði. Hjá sumum telst jafnvel frekar rólegt, á meðan verslunarfólk stendur langar vaktir flesta daga og meira er að gera en venjulega á mörgum veitingastöðum.
Í rannsókn sem gerð var í Bretlandi í fyrra, sýna niðurstöður hins vegar að heilt yfir upplifir um helmingur Breta á vinnumarkaði desember sem álagsþyngsta mánuðinn.
Óháð því hvar eða við hvað fólk starfar.
Ef við gefum okkur það að niðurstöðurnar væru svipaðar hérlendis, er áhugavert að rýna í þau atriði sem nefnd eru af rannsóknaraðilum sem útskýringar á þessari upplifun.
Jú, fyrir það fyrsta kemur í ljós að fólk hefur áhyggjur af peningum því 79% aðspurðra sögðust hafa mestu áhyggjurnar af framfærslukostnaði í desember, 55% sögðust hafa áhyggjur af því að hafa ekki efni á öllum jólagjafakaupum og 18% sögðust hafa áhyggjur af því að missa vinnuna sína á næsta ári.
Á ensku kallast þessi upplifun eða vanlíðan fólks „Festive Fatigue,“ eða hátíðarþreyta. Könnunin sem hér um ræðir náði til 2.006 manns sem eru á breskum vinnumarkaði.
Meðal þess sem sjá mátti skýr merki um er að í desembermánuði upplifir mjög hátt hlutfall starfsfólks sig með kulnunareinkenni og það sem meira er: Margir sem þó eiga inni þó nokkuð af sumarfrísdögunum sínum er að upplifa kulnunareinkenni í desember.
Að eiga inni sumarfrísdaga er á sumum vinnustöðum nokkuð algengt á Íslandi líka, en í umfjöllun um umrædda könnun er á það bent að mögulega þarf einmitt að passa upp á að fólk sé búið að taka út fríin sín, fyrst álagið og þreytan er að mælast svona mikil í desember.
Þá er á það bent að stjórnendur geta gert ýmislegt til að draga úr þessari hátíðarþreytu fólks.
Til dæmis sé mikilvægt að stjórnendur gefi sér tíma til að ræða við teymið sitt í aðdraganda álagsins, um það álag sem er framundan. Svona eins og íþróttaþjálfari gerir stöðugt við sitt lið.
Þá er mælt með því að stjórnendur hugi vel að því hvernig staðið hefur verið að upplýsingagjöf um markmið og áætlun næsta árs, en samkvæmt niðurstöðunni sögðust 23% svarenda líkur á að þessi desemberþreyta minnkaði ef það væri betur upplýst um áætlanir næsta árs.
Loks er stjórnendum bent á að meta ekki aðstæður út frá sinni eigin tilfinningu eða óskhyggju um það hvernig staðan er á þeirra vinnustað, heldur frekar að horfa til gagna um heilsu og líðan starfsfólks og svo framvegis, þannig að þeir geti tekið markvissari ákvarðanir um það hvernig best er að hlúa að starfsfólki nú þegar árinu er að ljúka.