Enski boltinn

Szoboszlai og Haaland eru mjög góðir vinir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland og Dominik Szoboszlai fagna hér saman marki með austurríska liðinu RB Salzburg.
Erling Haaland og Dominik Szoboszlai fagna hér saman marki með austurríska liðinu RB Salzburg. Getty/David Geieregge

Erling Haaland og Dominik Szoboszlai spila fyrir erkifjendurna Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en það vita kannski færri að þeir eru mjög góðir vinir.

Haaland og Szoboszlai hafa báðir stimplað sig fljótt inn hjá félögunum sínum eftir að þeir komu þangað úr þýska boltanum. Haaland kom í fyrra til City og vann þrennuna á fyrsta tímabili og bætti við markmeti deildarinnar að auki.

Szoboszlai kom til Liverpool í sumar og hefur hjálpað knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp að endurnýja miðju liðsins.

Haaland og Szoboszlai mætast með liðum sínum í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar um helgina og breska ríkisútvarpið fékk ungverska landsliðsmanninn í viðtal í tilefni af leiknum. Þar talaði hann um vináttuna við Haaland.

Þeir urðu mjög góðir vinir þegar þeir spiluðu með Red Bull Salzburg í Austurríki.

„Við urðum mjög góðir vinir af því að vorum báðir ungir. Hann er frábær leikmaður og frábær náungi,“ sagði Dominik Szoboszlai. Hann var líka spurður út það hvort þeir séu nágrannar.

„Já hann er er með sitt hús og svo eru tvö hús á milli okkar,“ sagði Szoboszlai en talaði hann við Haaland áður en hann kom til Liverpool?

„Þegar ég kom til Liverpool þá var ekki enn búið að staðfesta félagsskiptin. Ég sendi honum þá mynd af mér með Liverpool treyju. Hann spurði: Hvað er að gerast? Ég sagði á móti að við myndum sjá eitthvað af hvorum öðrum,“ sagði Szoboszlai.

„Hann sagði þá til hamingju og að enska úrvalsdeildin væri klikkuð,“ sagði Szoboszlai. Það má sjá þetta brot úr viðtalinu hér fyrir neðan. Ef Instagram færslan birtist ekki þá má reyna að endurhlaða fréttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×