Handbolti

Þriðjungur lands­liðs­fólks hefur spilað leik þar sem úr­slitum var lík­lega hag­rætt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sander Sagosen og Filip Jicha er ekki sáttir með dómarann í leik með Kiel.
Sander Sagosen og Filip Jicha er ekki sáttir með dómarann í leik með Kiel. Getty/Frank Molter

Könnun skandinavísku sjónvarpsstöðvanna hefur nú opinberað sláandi niðurstöður þegar kemur að hagræðingu úrslita í handboltaleikjum.

Ríkísjónvarpsstöðvarnar í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, NRK, SVT og DR, gerðu þessa könnun meðal landsliðsfólksins síns.

Einn af hverjum þremur leikmönnum landsliða þjóðanna grunar að þau hafi spilað leik þar sem úrslitum var hagrætt. Tveir þriðju af þeim sem svöruðu játandi töldu enn fremur að þetta hafi gerst margoft í þeirra leikjum.

Það er svo sem ekkert nýtt að menn hafi reynt að opinbera óheiðarlega dómara í handboltanum enda gömul saga og ný að dómgæsla í Evrópuleikjum hafi oft verið eins dómurum hafi hreinlega verið mútað. Það sem er athyglisvert við þessar niðurstöður er sú staðreynd að svo stór hluti af besta handboltafólki Norðurlanda hafi upplifað slíkt á eigin skinni.

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið og ræðir við landsliðsfólk sitt.

„Þetta eru sjokkerandi niðurstöður,“ sagði Sander Sagosen, stærsta handboltastjarna Norðmanna þegar hann heyrði um niðurstöðurnar.

103 af landsliðsfólki Noregs, Svíþjóðar eða Danmerkur tóku þátt í könnuninni en næstum helmingur leikmanna sem hafa tekið þátt í stórmótum landsliða þjóðanna svöruðu.

„Þetta er mikið áhyggjuefni. Þetta eru alls ekki góðar tölur fyrir okkar íþrótt og það er sorglegt að sjá þetta,“ sagði Sagosen en meiri en helmingur þeirra sem svöruðu játandi töluðu um grun um hagræðing úrslita á síðustu fjórum árum.

Lotte Grigel hefur spilað fyrir danska landsliðið á átta stórmótum og leikið sem atvinnumaður í Rússlandi, Ungverjalandi og Frakklandi en hún setti skóna upp á hilluna árið 2021.

„Þetta ætti ekki að vera vandamál sem við þurfum að ræða. Við ættum að vera örugg um það að það væri engin hagræðing úrslita í gangi í okkar íþrótt,“ sagði Grigel.

Norska ríkisútvarpið ræddi við nokkra handboltastjörnur um þeirra upplifun en það má lesa fréttina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×