Arsenal sýndi Lens enga miskunn þegar Frakkarnir komu í heimsókn í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í gær. Skytturnar unnu 6-0 sigur og tryggðu sér þar með sigur í B-riðlinum.
Í Meistaradeildarmörkunum spurðir Kjartan Atli Kjartansson Aron og Ólaf Kristjánsson hvort Arsenal væri líklegra til að vinna titil í ár en í fyrra.
„Já, ég held það. Mér finnst þeir vera búnir að taka skref áfram,“ sagði Aron. Hann segir samt að Arsenal vanti enn topp framherja.
„Eins og oft er búið að tala um vantar einn stóran póst í þetta lið. Ég er sammála mörgum öðrum, mér finnst vanta alvöru níu.“
Aron segir að Arsenal muni fá erfiðari verkefni upp í hendurnar á tímabilinu en það sem Lens lagði fyrir Skytturnar í gær.
„Þetta minnti mig smá á þegar maður er að spila ellefu á móti ellefu á æfingu, A og á móti B, og B-liðið má ekki pressa hundrað prósent. Þeir leyfðu þeim að gera hlutina, allavega eftir að þeir komust í 2-0,“ sagði Aron.
„Þegar þú gefur þessum mönnum með alla þessa hæfileika svona mikinn tíma og frjálsræði til að leika sér fær maður að sjá svona úrslit. En ég held að þeir þurfi að bæta við sig 1-2 topp klassa leikmönnum ef þeir ætla að komast á sama stall og Manchester City og Real Madrid.“
Umræðuna um Arsenal má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.