Þetta kemur fram í nýrri uppfærslu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að hraðinn á landrisinu sé engu að síður meiri en mældist fyrir 10. nóvember þegar Grindavíkurbær var rýmdur.
„Á meðan að kvika heldur áfram að safnast fyrir við Svartsengi eru líkur á öðru kvikuhlaupi og einnig eldgosi. Ef til kvikuhlaups kemur er líklegast að kvikan hlaupi aftur inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember. Líklegasti upptakastaður eldgoss er norður af Grindavík í átt að Hagafelli og svæðinu við Sundhnjúkagíga,“ segir í færslunni.
Skjálftavirkni hefur haldist svipuð síðustu daga. Skjálftavirknin er áfram væg og er mest á svæðinu við Hagafell.