Norðmenn hafa ótal gervigrasvelli út um allan Noreg enda mikill fótboltáhugi í landinu og veðuraðstæður í landinu kalla líka á slíka velli.
Þetta hefur hins vegar haft í för með sér mikla plastmengun enda litlar plastagnir á völlunum sem síðan berast út í náttúruna. Talið er að fimmtán hundruð tonn af gervigrasplasti hafi endað út í náttúrunni í Noregi.
Norðmenn eru nú tilbúnir að eyða stórum fjárhæðum í baráttuna. Lise Klaveness, formaður norska knattspyrnusambandsins, fagnar því að umhverfissjóður Norðmanna ætlar að veita áttatíu milljónum norskra króna í baráttuna við plastagnirnar en það er milljarður í íslenskum krónum. NRK segir frá.
Peningurinn fer í það að byggja upp varnir á völlunum sem eiga að halda plastögnunum á völlunum. Áhugasöm félög geta sótt um styrk frá og með 1. mars næstkomandi.
„Þetta er stórt umhverfisvandamál sem við verðum að leysa en við þurfum hjálp til að leysa það. Þess vegna erum við mjög þakklát umhverfissjóðnum fyrir að leggja til áttatíu milljónir norskra króna sem er ótrúleg jólagjöf til norska fótboltans og allra norsku fótboltafélaganna,“ sagði Lise Klaveness við TV2.
Peningurinn kemur frá því að Norðmenn hækkuðu nýverið skatt sinn á plastpoka í landinu.
Norska fótboltasambandið hafði þegar fengið 5,5 milljónir norskra króna frá norska ríkinu í baráttuna við að leysa vandamál sín með gervigrasvellina.
Íslenskir foreldra fótboltabarna þekkja það örugglega vel að fá þessar plastagnir heim með krökkunum af fótboltaæfingum. Það er því líklegt að mikið af gervigrasplasti endi einnig út í náttúrunni á Íslandi.