Sport

Burst hjá Cross og Willi­ams negldi stóra fiskinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Scott Williams er skrautlegur á sviðinu í Alexandra Palace.
Scott Williams er skrautlegur á sviðinu í Alexandra Palace. Vísir/Getty

Scott Williams, Dave Chisnall og Rob Cross eru komnir í 8-manna úrslit á heimsmeistaramótinu í pílukasti eftir þrjá skemmtilegar viðureignir í Alexandra Palace.

Í fyrsta leik dagsins mættust skemmtikrafturinn Scott Williams og Þjóðverjinn Damon Heta. Williams vann fyrsta settið 3-2 en Heta byrjaði annað settið frábærlega. Í fyrsta leggnum átti hann 170 eftir en ákvað að sleppa því að reyna við miðjureitinn á píluspjaldinu þar sem Williams var ekki kominn í útskot.

Áhorfendur voru ekki sérlega ánægðir með Heta og bauluðu á hann en þeir tóku gleði sína á ný strax í næsta legg þegar Williams gerði sér lítið fyrir og kláraði útskotið 170 sem oft er kallað „stóri fiskurinn“ enda hæsta talan sem hægt er að taka út með þremur pílum.

Þrátt fyrir þetta var þeð Heta sem vann settið og jafnaði í 1-1. Williams hins vegar tók yfir eftir þetta. Hann komst í 3-1 og tryggði sér síðan sigur með því að vinna fimmta settið. Hann mætir Michael van Gerwen í afar áhugaverðum leik í 8-manna úrslitum.

Í næstu viðureign mættust þeir Daryl Gurney og Dave Chisnall. Sá síðarnefndi byrjaði mun betur og komst í 2-0 í settum eftir að báðir höfðu misnotað fjölmörg tækifæri í oddalegg í öðru settinu til að tryggja sér sigurinn.

Gurney kom hins vegar til baka og jafnaði í 2-2 en Chisnall beit frá sér á ný. Hann vann næstu tvö sett og tryggði sér 4-2 sigur í leiknum. Chisnall vann sex af síðustu sjö leggjunum og viðureignina þrátt fyrir að klikka á 26 pílum í útskoti í leiknum.

Í þriðja leik dagsins mættust þeir Rob Cross og Jonny Clayton. Cross kláraði 140 stiga útskot í fyrsta leggnum og það gaf honum byr undir báða vængi. Hann vann fyrsta settið 3-1 og þar með kominn í 1-0.

Cross hélt áfram að gera vel og var að klára útskotin sín mjög vel. Meðaltalið hjá báðum var svipað en Cross duglegri að finna tvöföldu reitina þegar á þurfti að halda. Hann vann annað og þriðja settið nokkuð þægilega og var kominn í 3-1.

Í fjórða settinu komst hann í 2-1 og eftir að hafa klikkað á fimm pílum sem hefðu getað tryggt honum sigurinn náði hann því að lokum og vann leikinn 4-1. Clayton náði sér engan veginn á strik í leiknum og vann aðeins fjóra leggi í heildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×