Innlent

Þrír hand­teknir eftir að hafa rænt og gengið í skrokk á manni

Atli Ísleifsson skrifar
Mennirnir gista nú fangageymslur.
Mennirnir gista nú fangageymslur. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá sem grunaðir um að hafa rænt annan mann og gengið í skrokk á honum til að komast yfir verðmæti hans.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Atvikið átti sér stað í miðborg Reykjavíkur og kemur fram að lögreglu hafi tekist að hafa hendur í hári ræningjanna og gista þeir nú í fangaklefa.

Fram kemur að tilkynnt hafi verið um eld í skóla í hverfi 108. Lögregla og slökkvilið fóru á vettvang og kom þá í ljós að ekki hafi verið um eld að ræða heldur reyk innandyra og er grunur um að mögulega hafi hann verið eftir flugeld.

Í hverfi 104 í Reykjavík var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki og sást aðili hlaupa frá vettvangi. Greint er frá því að lögreglumenn hafi handtekið mann skammt frá og reyndist sá vera með sjóðsvél úr fyrirtækinu. Sömuleiðis var maðurinn með hnífa í fórum sínum og var hann vistaður í fangaklefa í kjölfarið.

Á svæði lögreglustöðvar 4 var tilkynnt um ósætti leigubílstjóra og farþega vegna fargjalds þar sem farþeginn átti að hafa veist að leigubílstjóranum og gert heiðarlega tilraun til þess að hlaupa undan lögreglu. Það tókst ekki og var hann fluttur í fangaklefa.

Þá varð umferðaróhapp á Heiðmerkurvegi þar sem bíll rann á dráttarbíl sem þar var við störf. Fljúgandi hálka var á vettvangi sem að átti stóran þátt í óhappinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×