Körfubolti

Shaq sá fyrsti í sögu Orlando Magic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O’Neal verður á staðnum en hann byrjaði NBA feril sinn hjá Orlando Magic.
Shaquille O’Neal verður á staðnum en hann byrjaði NBA feril sinn hjá Orlando Magic. Getty/Roy Rochlin

Bandarísku körfuboltagoðsögninni Shaquille O'Neal verður sýndur mikill heiður í næsta mánuði þegar treyja hans fer upp í rjáfur í höll Orlando Magic.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Orlando Magic heiðrar fyrrum leikmann sinn með þessum hætti.

Shaq mun þó ekki upplifa þetta í fyrsta sinn því treyjur hans fóru á sínum tíma upp í rjáfur hjá bæði Los Angeles Lakers og Miami Heat.

Hann verður aðeins fjórði leikmaðurinn í sögunni með að minnsta kosti þrjár heiðraðar treyjur en hinir eru Wilt Chamberlain, Bill Russell og Pete Maravich.

Orlando Magic valdi Shaq í nýliðavalinu á sínum tíma og hann spilaði þar fyrstu fjögur tímabil sín í NBA-deildinni. Á þessum árum var hann með 27,2 stig, 12,5 fráköst og 2,4 varin skot í leik. Hann var valinn nýliði ársins 1993, var sá stigahæsti í deildinni 1995 og fór alla leið í lokaúrslitin með liðinu árið 1995.

Athöfnin fer fram 13. febrúar næstkomandi í tengslum við leik liðsins á móti Oklahoma City Thunder. Hún er hluti af hátíðarhöldum Magic í tilefni af 35 tímabili félagsins í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×