Fótbolti

Segja fréttir af launa­kjörum Gylfa stór­lega ýktar

Siggeir Ævarsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson gekk í raðir Lyngby í haust eftir langa fjarveru frá fótboltavellinum
Gylfi Þór Sigurðsson gekk í raðir Lyngby í haust eftir langa fjarveru frá fótboltavellinum Getty/Lars Ronbog

Forráðamenn Lyngby sáu ástæðu til að tjá sig um fréttir af launakjörum Gylfa Sigurðssonar hjá félaginu og segja að þær tölur sem nefndar hafa verið í íslenskum fjölmiðlum algjörlega út úr korti.

Viðskiptablaðið fjallaði um launakjör íslenskra íþróttamanna í árslok og var þar fullyrt að árslaun Gylfa hjá Lyngby væru 50 milljónir í íslenskum krónum talið, sem samsvarar 2,5 milljónum danskra króna. Andreas Byder, framkvæmdastjóri Lyngby, segir þessa tölu úr lausu lofti gripna og hann sé þreyttur á þessum fréttaflutningi.

„Við gefum laun ekki upp. Hvorki hjá starfsfólki né leikmönnum. En ég get fullyrt að Gylfi er á mun lægri launum en nefnd hafa verið í íslenskum fjölmiðlum.“

Meðan Gylfi var leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni voru laun hans svimandi há, eða 100.000 pund á viku, eða 5,2 milljónir yfir árið sem samsvarar um 900 milljónum íslenskra króna. Gylfi hefur verið duglegur við að ávaxta pund sitt með fjárfestinum, m.a. í fasteignum síðustu ár, og má því leiða að því líkur að uppgefnar tekjur hans séu ekki eingöngu launagreiðslur frá Lyngby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×