Frá þessu greinir hlaðvarpsþátturinn Gula spjaldið. Albert Brynjar Ingason er umsjónarmaður þáttarins sem og sérfræðingur Stöðvar 2 Sport um íslenska boltann sem og Meistaradeild Evrópu.
Í færslu Gula spjaldsins segir að hinn 28 ára gamli Aron hafi valið Breiðablik eftir að hafa verið einnig í samningaviðræðum við Val. Svo langt voru þær samningaviðræður komnar að Valsarar voru í þann mund að boða til blaðamannafundar.
Aron Bjarnason til Breiðabliks (Staðfest)
— Gula Spjaldið (@gulaspjaldid) January 11, 2024
Hinn 28 ára gamli Aron Bjarnason hefur ákveðið að velja Breiðablik framyfir Val og skrifar undir í Kópavoginum.
Valur voru búnir að undirbúa blaðamannafund en svo virðist sem Aroni hafi snúist hugur á síðustu stundu. pic.twitter.com/FViYvUaDjP
Aron kemur til Breiðabliks eftir að hafa leikið með sænska liðinu Sirus undanfarin ár. Sem atvinnumaður hefur vængmaðurinn einnig leikið fyrir Újpest í Ungverjalandi en hér á landi hefur hann leikið fyrir Þrótt Reykjavík, Fram, ÍBV, Breiðablik og Val.
Hann hefur nú ákveðið að snúa aftur í Kópavoginn þar sem hann lék frá 2017 til 2019. Eflaust er hann hugsaður sem fyrsti kostur á hægri vængnum þar sem allt virðist benda til þess að Jason Daði Svanþórsson elti Óskar Hrafn Þorvaldsson og Anton Loga Lúðvíksson til Haugasund í Noregi.