„Ég leiði þetta starf. Þetta er sögulegt verkefni og við erum að byrja okkar vinnu. Hugmyndin er sú að tjónaskráin setji umgjörð utan um söfnun beiðna eða krafna af hálfu þeirra sem hafa orðið fyrir tjóni í Úkraínu vegna stríðsaðgerða Rússland.“
„Við erum núna að vinna í því að búa til reglur um inntöku þessara beiðna og áherslan verður þá á alvarlegustu brotin. Brot sem hafa í för með sér mannslát, brot sem snúa að illri meðferð. Þessi alvarlegustu mannréttindabrot sem um er að ræða.“
Róbert segir að opnað verði fyrir móttöku beiðna á þessu ári.
„Það er gríðarlega stórt verkefni og krefst gríðarlegrar þekkingu og kunnáttu. Til þess að gera það með þeim hætti að tjónaskráin verði aðgengileg, að kröfurnar sem settar eru fram, að upplýsingar sem þurf aða fylgja og svo framvegis, séu skýrar.“
„Tjónaskráin er fyrsta skrefið í átt að réttlæti fyrir þá sem hafa orðið fyrir þessum stríðsaðgerðum. Vegna þess að í framhaldinu af vinnu tjónaskrárinnar á að segja á laggirnar dómstól eða nefnd sem mun taka afstöðu til hverrar tjónakröfu fyrir sig.“
Umfangið verulegt
Róbert segir að hlutverk nefndarinnar sé því að safna kröfunum, fara yfir þær og búa þannig í haginn að hægt sé að tryggja að þau sem hafi orðið fyrir tjóni fái fyrir það bætur.
Hann segir umfangið líklega verulegt.
„Ég myndi telja ljóst að beiðnir verði í milljónum talið. Það er mjög óljóst á þessu stigi hvernig þær mun flokkast en það er alveg víst að þær munu hlaupa á milljónum.“
Er það ekkert yfirþyrmandi?
„Ég var forseti Mannréttindadómstóls Evrópu sem er dómstóll sem hefur lögsögu upp á 700 til 800 milljón manns og með 80 til 90 þúsund mál á hverjum tíma. Þetta er um 700 manna dómstóll. Ég var forseti þegar farsóttin geisaði og þegar stríðið gegn Úkraínu hófst. Það var að mörgu leyti yfirþyrmandi en miðað við þá reynslu þá sé ég fyrir mér að þetta gangi. En þetta verður mjög erfitt verkefni.“
Róbert segir ómögulegt að vita hversu lengi nefndin verður að störfum en til að byrja með sé gert ráð fyrir þremur árum.
„Þetta snýst að verulegu leyti um pólitískan vilja. Það er nú ekki oft sem maður vill hrósa stjórnmálamönnum en íslensk stjórnvöld hafa staðið sig gífurlega vel í þessu sambandi. Núverandi ríkisstjórn hefur virkilega vel staðið að þessu. Tjónaskráin og hugmyndin að henni varð til og var samþykkt á Reykjavíkurfundi Evrópuráðsins í maí,“ segir Róbert og að hugmyndin hafi að miklu leyti með stuðningi íslenskra stjórnvalda.