Fótbolti

Heið­dís á far­alds­fæti á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heiðdís hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Basel.
Heiðdís hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Basel. Basel

Heiðdís Lillýardóttir hefur yfirgefið svissneska efstu deildarliðið Basel og er því í leit að nýju félagi. Þetta kemur fram á Instagram-síðu hennar.

Heiðdís var á mála hjá Basel í rúmlega eitt ár en hún samdi við félagið í febrúar á síðasta ári. Hún hefur spilað í þremur löndum en ásamt því að spila fyrir Breiðablik, Selfoss og Hött á Egilsstöðum hér á landi þá var hún á láni hjá Benfica árið 2022.

Þessi 27 ára gamli varnarmaður á að baki 126 leiki í efstu deild hér á landi og hefur skorað í þeim 4 mörk. Þá á hún að baki 19 leiki fyrir yngri landslið Íslands en hefur ekki enn leikið fyrir A-landsliðið.

Í kveðjupósti sínum segir Heiðdís að lífið í Sviss hafi verið upp og niður en hún sé þakklát fyrir allt fólkið sem hún kynntist. Ekki kemur fram hvert förinni er heitið næst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×