Í tölvupósti sem barst starfsmönnum Isavia fyrir um klukkustund segir að ljóst sé að allt flugvallarsvæðið verði brátt án alls heits vatns. Þess vegna sé mjög mikilvægt að allir í „flugvallarsamfélaginu“ leggist á eitt.
Ekki sé nein varaleið til að kynda heitt vatn inn á hitaveitukerfin.
![](https://www.visir.is/i/AFA0FA3B3D665D241F9D0A8D011091499C8DA4D939647DA0F354B3792C540C70_713x0.jpg)
„Vegna þessa erfiðu aðstæðna biðjum við alla að leggjast á eitt með okkur að gera það sem hægt er að gera til að halda varma inni í flugstöðunni og byggingu á svæðinu. Passa eins og mögulegt er að loka gluggum eins og kostur er og loka hurðum og passa að þær standi ekki opnar,“ segir í tölvupóstinum.
Þá segir jafnframt að gripið hafi verið til eftirfarandi aðgerða í flugstöðinni:
- Slökkt hefur verið á allri snjóbræðslu í og við flugstöðina. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að auka og tryggja hálkuvarnir í gönguleiðum.
- Búið er að slökkva á loftræstingu í byggingunni til að köldu lofti sé ekki blásið inn í bygginguna.
- Verið er að koma upp á völdum stöðum rafmagns hitablásurum til að halda lágmarkhita á farþegasvæðum og nánasta umhverfi þeirra.
Verið sé að grípa til allra hugsanlegra mótvægisaðgerða til að mæta þeim aðstæðum sem upp eru komnar.