Þetta kom fram í vitnisburði fyrir dómi í aðalmeðferð í hryðjuverkamálinu í dag. Kærasta Sindra Snæs gaf skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hún var í vinnunni úti í Svíþjóð, þar sem hún starfar sem sjúkraþjálfari.
Hún sagði að þau Sindri Snær hefðu kynnst árið 2020 en hætt saman árið 2021. Í lok júlí árið 2022, skömmu fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi þau tekið saman á ný. Þá hefði Sindri Snær verið við betri andlega heilsu en áður og því hafi þau byrjað saman aftur.
Hún sagði að ranglega væri haft eftir henni í samantektarskýrslu eftir yfirheyrslu hennar hjá lögreglu. Hún sagðist ekki hafa sagt að Sindri Snær ætti þrjá riffla heldur að þrír rifflar hafi verið inni á heimilinu. Þetta kemur heim og saman við framburð bæði Sindra Snæs og Birgis Ragnars Baldurssonar, föður Sindra Snæs.
Þá staðfesti hún vitnisburð Sindra Snæs frá því í gær um að þau hafi varið miklum tíma saman eftir að þau komu heim af Þjóðhátíð og að þau hafi farið saman til Hveragerðis daginn sem Gleðigangan var gengin nokkrum dögum seinna.
Hafi ekkert á móti útlendingum, þannig séð
Unnusta Ísidórs og sambýliskona til tæpra sjö ára sagði að unnusti hennar ætti það til að vera orðljótur og gera sig stórkarlalegan fyrir framan vini sína. Hann meinti þó ekkert með því.
Þá sé hann alls ekki ofbeldisfullur og hafi aldrei af alvöru talað um að beita ofbeldi.
Hún gekkst við því að nasistafáni hefði fundist á heimili þeirra Ísidórs. Hann hafi hangið uppi á vegg í geymslu, þar sem Ísidór hafi til að mynda geymt þrívíddarprentara.
Spurð úr í afstöðu Ísidórs til útlendinga sagði hún að hann hefði þannig séð ekkert á móti útlendingum. Hann teldi þó að setja ætti Íslendinga í fyrsta sæti þegar kemur að húsnæðismálum og öðru slíku.
Eins og dótabyssur
Hún sagði að Ísidór hafi notað þrívíddarprentarann í geymslunni til þess að prenta hluti, sem hún taldi vera hluti í einhvers konar dótabyssur, þar sem þeir væru úr plasti Þá sagði hún að einn til tvo daga hafi tekið að prenta hvern hlut.
Spurð að því hvaða áhrif hryðjuverkamálið svokallaða hefði haft á þau Ísidór sagði hún að það hefði haft „rosalega slæm áhrif“ á þau andlega. Þau hafi verið búin að skipuleggja framtíð sína saman og það væri fjarstæðukennt að hann myndi gera nokkuð til að tefla því í hættu.
„Það er rosalega fáránlegt að hann myndi gera eitthvað svona stórt, hryðjuverk.“