Fótbolti

Hodgson fluttur á sjúkra­hús af æfingu Crystal Palace

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roy Hodgson er í stöðugu ástandi eftir að hafa verið fluttur á sjúkrahús.
Roy Hodgson er í stöðugu ástandi eftir að hafa verið fluttur á sjúkrahús. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Roy Hodgson, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace, var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa veikst á æfingu liðsins í morgun.

Crystal Palace sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kom fram að félagið hafi ákveðið að fresta blaðamannafundi eftir að hinn 76 ára gamli Hodgson var fluttur á sjúkrahús vegna veikinda. Þá tók félagið einnig fram að þjálfarinn væri í stöðugu ástandi og óskaði honum skjóts bata.

Í morgun bárust fréttir úr ýmsum áttum af því að ástæða blaðamannafundar Palace væri sú að félagið væri búið að ákveða að segja Hodgson upp sem þjálfara liðsins. Liðið situr í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum frá fallsvæðinu.

Samkvæmt heimildum BBC er Oliver Glasner, fyrrverandi þjálfari Eintracht Frankfurt, líklegasti kandídatinn til að taka við stjórnartaumunum hjá Crystal Palace.

Hodgson hefur stýrt Crystal Palace í 200 leikjum, en liðið hefur aðeins unnið þrjá deildarleiki síðan í september á síðasta ári. Þá hefur liðið tapað tíu af síðustu 16 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×