Körfubolti

Durant skýtur til baka á Barkley: „Töluðu um eitt­hvað nei­kvætt kjaft­æði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant tók ekki vel í gagnrýni Charles Barkley.
Kevin Durant tók ekki vel í gagnrýni Charles Barkley. getty/Stacy Revere

Kevin Durant, leikmaður Phoenix Suns í NBA-deildinni, hefur sent Charles Barkley tóninn eftir að hann gagnrýndi hann fyrir skort á leiðtogahæfileikum.

Barkley hefur aldrei verið feiminn við að skjóta á Durant og gerði það nú síðast um helgina. Í beinni útsendingu frá Stjörnuleiknum sagði Barkley að Devin Booker þyrfti að stíga upp sem leiðtogi í Suns-liðinu því Durant væri það ekki. Það hefði margoft komið í ljós.

Durant gaf ekki mikið fyrir þessa gagnrýni Barkleys og sendi honum tóninn.

„Mér finnst það sé erfitt fyrir fólk sem er í sjónvarpi, sem kemur aldrei á æfingar eða leiki, að tala um það sem ég geri. Það er ekki á staðnum,“ sagði Durant.

„Þetta er hluti af sjónvarpi. Þeir þurftu eitthvað til fylla plássið og svo þeir töluðu um eitthvað neikvætt kjaftæði. Ef þú ert ekki á æfingum með mér ber ég ekki virðingu fyrir skoðunum þínum.“

Durant kom til Phoenix frá Brooklyn Nets fyrir ári síðan. Á þessu tímabili er hann með 28,2 stig, 6,6 fráköst og 5,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Phoenix er í 5. sæti Vesturdeildarinnar með 33 sigra og 22 töp.

Hinn 35 ára Durant er tíundi stigahæsti leikmaðurinn í sögu NBA. Hann kom inn í deildina 2007 og hefur skorað 28.245 stig í 1.034 leikjum, eða 27,3 stig að meðaltali í leik. 

Durant varð meistari með Golden State Warriors 2017 og 2018 en Barkley og margir aðrir gefa lítið fyrir þá titla þar sem þeir finnst sem Durant hafi stokkið á bakið á Stephen Curry og félögum, sem voru með ógnarsterkt lið fyrir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×