Pogba var tekinn í lyfjapróf eftir leik Udinese og Juventus í fyrstu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar þann 20. ágúst síðastliðinn. Í september var greint frá því að of hátt magn testósteróns hafi mælst í líkama hans. Sama niðurstaða kom úr öðru sýni sem tekið var úr honum í október.
Refsiramminn fyrir brotið er fjögur ár og fékk hann því hámarksrefsingu.
Pogba gekk í raðir Juventus á ný frá Manchester United árið 2022. Hann lék aðeins tíu leiki með liðinu á síðasta tímabili og var bara búinn að spila tvo leiki áður en hann féll á lyfjaprófi.
Franski miðjumaðurinn lék áður með Juventus á árunum 2012-16. Hann varð fjórum sinnum Ítalíumeistari með liðinu og tvisvar sinnum bikarmeistari. Þá komst Juventus í úrslit Meistaradeildar Evrópu 2015.
Fréttin hefur verið uppfærð.