Lokakvöld Söngvakeppni RÚV fer fram í kvöld. Samkvæmt vef EurovisionWorld er Palestínumanninum Bashar Murad spáð sigri með laginu Wild West. Þá er Íslandi spáð þriðja sæti í Eurovision samkvæmt vefnum.
Miklar umræður hafa skapast vegna þátttöku Íslands í Eurovision meðan Ísrael fær að taka þátt. Hafa einhverjir heitið sniðgöngu en aðrir sagst ætla að fylgjast með Söngvakeppninni sem stuðningur við Bashar.
Gagnrýnir aðgerðaleysi
Þröstur Leó gagnrýndi þátttöku Íslands í keppninni í ljósi fjöldamorðanna sem nú fara fram á Gasa af völdum Ísraelshers. Þá lýsti hann yfir stuðningi við Bashar, og sagðist ætla að styðja hann heils hugar þrátt fyrir að hann myndi ekki fylgjast með keppninni.
„Ég get orðið svo ógeðslega reiður yfir öllu þessu rugli sem er í gangi. Það er verið að murka lífið úr konum, börnum og mönnum þarna úti í Palestínu,“ segir hann í upphafi. „Og við erum að fara að keppa í einhverri söngvakeppni, Eurovision söngvakeppni, þar sem Ísraelsmönnum er leyft að taka þátt bara eins og ekkert sé. Bara hæ,“ segir hann með hæðnistón í röddinni.
„Og þetta er ömurlegt. Þetta er bara fáránlegt að þetta skuli geta skeð 2024. Ég veit ekki hvað, ætlum við aldrei að læra neitt? Og ætlum við bara að leyfa þetta? Við erum ekki einu sinni að sækja þetta fólk sem er með landvistarleyfi hérna á landinu.“
„Ætla að styðja hann þúsund prósent“
Þá segist hann hafa ákveðið að hann ætli ekki að fylgjast með keppninni, sem hann lýsir sem rugli.
„En ég ætla hins vegar að styðja hann Bashar Murad. Já, ég ætla að gera það og það er mín sannfæring. Ég ætla að styðja hann margoft og ég ætla að styðja hann þúsund prósent,“ segir Þröstur.
„En hugsið bara aðeins málið. Hugsið bara aðeins í hvaða stöðu þetta fólk er. Og eigum við að láta þetta bara viðgangast eins og bara, allt í gúddí? Nei,“ segir hann í lokin.
Myndbandið má sjá hér að neðan.