Sveitarstjórnarráð Framsóknar styður að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórnin hafi samþykkt. Enda setji Framsókn barnafjölskyldur í forgang. Jafnframt styðji ráðið að dregið verði úr gjaldskrárhækkunum sem snúa að barnafjölskyldum.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins sagði í kvöldfréttum okkar í gær að samningaviðræður breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins væru á lokametrunum og þeim gæti jafnvel lokið í dag. Sátt væri um aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlaði að grípa til í tengslum við samningana.
Hins vegar stæði á sveitarfélögunum. Yfirlýsing þeirra væri allt of loðin og ekkert fast í hendi í henni um að sveitarfélögin ætli að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Þá hefðu sveitarfélögin ekki heldur útfært hvernig þaug hyggðust draga hluta gækkana á gjaldskrám þeirra frá áramótum til baka, sem væri forsenda þess að skrifað yrði undir nýja kjarasamninga.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri sagði borgina ætla að ganga að kröfum verkalýðshreyfingarinnar bæði varðandi gjaldskrárlækkanir og skólamáltíðir. Sveitarfélögin myndu hagnast mikið á hóflegum kjarasamningum, hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Hann vonaði að sveitarfélögin muni almennt taka þátt í þessum aðgerðum.
Samkvæmt heimildum fréttastofunnar er mikil andstaða við það meðal sveitarfélaga þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihlutasamstarfi að samþykkja gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Jafnvel í Hafnarfirði þar sem það var þó í meirihlutasáttmála Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir.