Aðgerðirnar sem miðlæg rannsóknardeild lögreglu lagðist í víða um land í gær voru gríðarlega umfangsmiklar, sennilega sú stærsta af þessum toga sem hefur farið fram hér á landi.
Fjölmargar stofnanir komu að aðgerðunum, svo sem lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.
Aðgerðirnar hófust um hádegisbil í gær og stóðu til miðnættis. Þær beindust meðal annars að fyrirtækjum Davíðs Viðarssonar, svo sem Wok On, Pho Vietnam og Vy-þrifum. Þá var Herkastalanum í Kirkjustræti þar sem gistihúsið Kastali Guesthouse er rekið lokað og gestum á gistihúsinu vísað út.
Úrræði vegna meints mansals virkjuð
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir í samtali við fréttastofu að fáar upplýsingar sé hægt að veita um málið eins og er, svo sem hversu margir voru handteknir og hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Frekari upplýsinga sé að vænta með morgninum eftir stöðufund með lögreglumönnum og þeim sem komu að aðgerðunum í gær.
Grímur segir úrræði hafa verið virkjuð sem grípi fórnarlömb hugsanlegs mannsals, en getur ekki veitt upplýsingar um hversu mörg þau meintu fórnarlömb séu. Það sé eitt af því sem nú sé til skoðunar. Fólkið muni fá tímabundið dvalarleyfi hér á landi á meðan rannsókn málsins standi yfir.