Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun verði auglýst á morgun, fimmtudag, og að atkvæðagreiðsla hefjist nk. mánudag kl. 9.00 og standi í þrjá daga. Verði vinnustöðvun samþykkt er gert ráð fyrir að verkföll hefjist föstudaginn 22. mars nk.
Samninganefndin segir að kjör og vinnufyrirkomulag starfsfólks í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli væri eitt af þeim málum sem þurfi að leysa í yfirstandandi kjaraviðræðum milli VR og Samtaka atvinnulífsins. Önnur mál lúti meðal annars að launalið, forsenduákvæðum og ýmsum kjara- og réttindamálum.
„Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli vinnur á lágmarkstöxtum og eftir vinnufyrirkomulagi sem þekkist ekki innan okkar kjarasamnings og brýtur gegn grundvallarrétti til samfellds vinnutíma,“ segir í samþykkt samninganefndarinnar.
Yfir sumarmánuðina væri starfsfólkið í 100% starfi og vinni á 12 tíma vöktum eins og venjan væri um starfsfólk sem sinni flugumferð. „Á veturna eru þau þvinguð úr 100% starfi í 76% starf og njóta ekki sjálfsagðs réttar til samfellds vinnutíma. Þau mæta til vinnu milli 5 og 9 að morgni, er síðan sent heim og gert að mæta aftur milli 13 og 17. Þetta er óviðunandi vinnufyrirkomulag og mikilvægt að ná fram leiðréttingu á því,“ segir í samþykktinni.
Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli vinni eftir lágmarkstöxtum og starfshlutfallskerðing geri mörgum þeirra mjög erfitt að ná endum saman.
„Starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli er langþreytt á skeytingarleysi gagnvart kjörum þeirra og vinnuumhverfi. Þau vinna í framlínu flugfélagsins og þeim þykir annt um bæði starf sitt og farþegana sem þau þjónusta. Þau vilja fá leiðréttingu á sínum kjörum og starfsumhverfi og samninganefnd VR telur rétt að kalla eftir lýðræðislegum vilja þeirra með atkvæðagreiðslu um verkfall," segir í samþykkt samninganefndar VR.