„Borgarráð ályktar að Reykjavíkurborg vilji greiða fyrir gerð kjarasamninga til fjögurra ára sem miða að því að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. Reykjavíkurborg telur að hófsamir kjarasamningar með þessu markmiði feli í sér miklar kjarabætur fyrir alla íbúa. Reykjavíkurborg er því tilbúin að taka þátt í yfirlýsingu ríkisins og sveitarfélaga sem felur í sér að Reykjavíkurborg haldi aftur af hækkun gjaldskráa sem snúa að börnum og barnafjölskyldum, taki þátt í því með stjórnvöldum að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og tryggi að auki að skólamáltíðir í grunnskólum verði gjaldfrjálsar með 75 prósent greiðsluþátttöku ríkisins út samningstímabilið.“
Svo hljóðar ályktun sem borgarfulltrúar meirihlutaflokkanna Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar í borgarstjórn ásamt borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins samþykktu á fundi borgarráðs í dag.
Sjálfstæðismenn að mestu leyti sáttir við kröfurnar
Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi setið hjá við afgreiðslu málsins. Þeir hafi lagt fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að Reykjavíkurborg greiði fyrir gerð kjarasamninga til fjögurra ára með það að markmiði að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. Hófsamir kjarasamningar með þessu markmiði munu fela í sér miklar kjarabætur fyrir alla íbúa. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks rétt að Reykjavíkurborg taki þátt í yfirlýsingu ríkisins og sveitarfélaga sem felur í sér að Reykjavíkurborg haldi aftur af hækkun gjaldskráa sem snúa að börnum og barnafjölskyldum og taki þátt í því með stjórnvöldum að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Fulltrúarnir telja þó rétt að leita annarra leiða til að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð, en í gegnum gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna.“
Kolbrún vill nákvæma tölu
Þá segir að áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna hafi vikið af fundi áður en málið var tekið á dagskrá. Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hafi lagt fram eftirfarandi bókun:

„Flokkur fólksins tekur undir þessa ályktun og vonar innilega að skrifað verði undir kjarasamninga sem fyrst. Hins vegar hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá í þessari yfirlýsingu hversu mikið á „ halda aftur af gjaldskrárhækkunum“. Hvaða prósentu er er verið að tala um hér? Flokkur fólksins hefur mótmælt harðlega gjaldskrárhækkunum síðustu ár sem verst hafa komið niður á bágstöddum. Gjaldskrárhækkanir hafa auk þess farið beint út í verðlagið.“