Körfubolti

Rak hausinn í hringinn þegar hann varði skot á ögur­stundu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards átti stórleik þegar Minnesota Timberwolves sigraði Indiana Pacers í nótt.
Anthony Edwards átti stórleik þegar Minnesota Timberwolves sigraði Indiana Pacers í nótt. getty/Dylan Buell

Anthony Edwards, leikmaður Minnesota Timberwolves, er mikill háloftafugl. Það kom bersýnilega í ljós í leik gegn Indiana Pacers í nótt.

Þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum fór Indiana í sókn, tveimur stigum undir, 111-113. Bennedict Mathurin fékk boltann alveg við körfu Minnesota og ætlaði að leggja hann ofan í og jafna metin.

Kom þá ekki Edwards eins og skrattinn úr sauðaleggnum, stökk hæð sína í loft upp, varði skotið og tryggði Úlfunum sigurinn.

Edwards var að vonum hinn sáttasti eftir vörsluna en hann fann líka til enda rak hann höfuðið nokkuð harkalega í körfuna er hann varði skot Mathurins. Varnartilþrifin glæsilegu má sjá hér fyrir neðan.

„Já, ég held ég hafi rekið hausinn í og mér er mjög illt. Ég lenti líka á úlnliðnum. Ég hef aldrei hoppað svona hátt á ævinni,“ sagði Edwards eftir leikinn. „Ég er með háan sársaukaþröskuld og datt nokkuð harkalega þegar ég varði skotið. Ég held ég sé nokkuð harður gaur.“

Edwards var einnig frábær í sókninni í leiknum í nótt og skoraði 44 stig. Hann er með 26,1 stig, 5,2 fráköst og 5,1 stoðsendingu að meðaltali í leik í vetur.

Minnesota er á toppi Vesturdeildarinnar með 44 sigra og nítján töp. Liðið hefur unnið tvo leiki í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×