Tuttugu og sex oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum út um allt land gagnrýna formann Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir að fara gegn vilja sveitarfélaganna í aðkomu sinni að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
„Því var treyst að formaður myndi starfa samkvæmt eindregnum vilja sveitastjórna og bókun stjórnar og myndi upplýsa aðila vinnumarkaðarins og forsætisráðherra um afstöðuna með skýrum hætti. Ljóst er að svo var ekki,“ segja oddvitarnir í sameiginlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, gefur lítið fyrir gagnrýni Sjálfstæðisoddvitanna. Hún ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hugmyndafræðilegur flótti
Heiða Björg segir að henni sýnist stjórnarmenn í sambandinu vera á flótta á undan eigin ákvörðunum. Það sé alveg ljóst og sjáist í fundargerðum sambandsins að ákvörðun um að fallast á kröfur verkalýðshreyfingarinnar, um gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hafi verið tekin einróma í stjórn SÍS. Fáar ákvarðanir hafi verið teknar eftir jafnmikið samráð
„Mig grunar að Sjálfstæðismenn séu á einhverjum hugmyndafræðilegum flótta frá ákvörðun sinni í ríkisstjórn, að óska eftir þessu, og staðfesta það í stjórn. Ef þeir vilja kenna mér um það, þá bara verða þeir að gera það. Ég held að friður á vinnumarkaði sé mikilvægari.“
Öll þjóðin hafi fylgst með viðbrögðum við bókuninni
Meðal þess sem segir í opnu bréfi Sjálfstæðismannanna er að Heiða Björg hafi ekki starfað eftir samþykkt stjórnar sambandsins um að hún óskaði eftir því að ríkisvaldið leitaði nýrra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Þá hafi hún ekki kynnt samþykktina fyrir aðilum vinnumarkaðar. Heiða Björg gefur lítið fyrir þessa gagnrýni.
„Ég held að öll þjóðin hafi fylgst með viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar við þessari bókun. Það voru ekki góð viðbrögð, ekki mjög jákvæð.“
Viðtal við Heiðu Björg í Bítinu má heyra í spilaranum hér að neðan. Hún kemur einnig inn á þing SÍS, sem hefst í dag og verður sýnt frá hér á Vísi.