Fótbolti

Lék lengi á Eng­landi en er nú fram­kvæmda­stjóri lands­liðs sem hefur aldrei spilað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dave Kitson í leik gegn Chelsea.
Dave Kitson í leik gegn Chelsea. EPA/ANITA MARIC

Aðdáendur enskrar knattspyrnu muna ef til vill eftir Dave Kitson. Hann stóð upp úr þar sem um er að ræða einkar hávaxinn framherja með eldrautt hár ásamt því að hann spilaði með Íslendingaliðum. Kitson er nú tekinn við sem framkvæmdastjóri hjá smáríki í Eyjaálfu sem hefur aldrei spilað landsleik.

Kitson gerði garðinn frægan með Reading þar sem hann lék með Brynjari Birni Gunnarssyni, þaðan fór hann til Stoke City – sem hefur gríðarlegar Íslendinga tengingar – og svo Portsmouth þar sem hann lék með Hermanni Hreiðarssyni. Alls lék hann 81 leik í ensku úrvalsdeildinni og 155 í ensku B-deildinni.

Á fimmtudag var tilkynnt að hann væri tekinn við landsliði Nauru. Um er að ræða smáríki í Eyjaálfu þar sem rétt rúmlega tíu þúsund manns búa.

Á vef knattspyrnusambands eyjunnar segir að sambandið sé gríðarlega ánægt að tilkynna ráðningu Kitson sem bæði landsliðsþjálfara sem og sendiherra eyjunnar. Kitson mun vinna náið með öðrum Englending, Charlie Pomroy, en sá verður landsliðsþjálfari Nauru.

Nauru ætlar sér stóra, allavega stærri, hluti í knattspyrnuheiminum en landið hefur til þessa ekki verið með starfandi landslið. Nú er planið að spila við Amerísku-Samóaeyjarnar sem og að stofna smáríkjasamband í Eyjaálfu með Kiribati, Micronesiu, Palau, Tuvalu og Marshalleyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×