Sport

Vonarstjarnan varð fyrir býflugnaárás í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Alcaraz heldur um höfuðið eftir stungu frá býflugu.
Carlos Alcaraz heldur um höfuðið eftir stungu frá býflugu. Getty/Clive Brunskill

Spænski tenniskappinn Carlos Alcaraz lenti frekar illa í því í leik sínum á móti Alexander Zverev á Indian Wells tennismótinu. Alcaraz vann leikinn en fékk þó meira að kenna á því frá býflugum en mótherjanum.

Alcaraz tryggði sér sæti í undanúrslitum mótsins með öruggum 6-3 og 6-1 sigri. Vandræðin urðu í fyrsta settinu þegar dómarinn varð að stoppa leikinn. Ástæðan var að býflugur réðust á Alcaraz og stungu hann í andlitið.

Dómarinn gerði hlé á leiknum á meðan mótshaldarar komu býflugnahópnum í burtu. Alcaraz og Zverev földu sig inni á meðan enda þar í skjóli frá hinum agressífu býflugum.

„Þetta er óvenjulegasti leikurinn sem ég hef spilað. Ég hélt að þetta væru bara nokkrar flugur en svo leit ég upp og sá það voru þúsundir af þeim. Margar af þeim voru líka komnar í hárið mitt. Þetta var algjörlega fáránlegt,“ sagði Carlos Alcaraz á blaðamannafundi eftir sigurinn á Zverev.

„Ég ætla ekki að ljúga að ykkur. Ég er svolítið hræddur við þær,“ viðurkenndi Spánverjinn ungi. 

Alcaraz er bara tvítugur en hefur unnið tvö risamót og var í öðru sæti á síðasta heimlista Alþjóða tennissambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×