Lífið

Nadine og Þór­hildur snúa aftur í sjón­varpið

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Að sögn Þórhildar og Nadine verða efnistökin í sjónvarpsþáttunum af sama toga; fjölbreytt fréttamál sem hafa komið upp hér á landi í gegnum tíðina og hrist upp í þjóðinni.
Að sögn Þórhildar og Nadine verða efnistökin í sjónvarpsþáttunum af sama toga; fjölbreytt fréttamál sem hafa komið upp hér á landi í gegnum tíðina og hrist upp í þjóðinni. Elva Þrastardóttir

Hlaðvarpsþættirnir Eftirmál, í umsjón Þórhildar Þorkelsdóttur og Nadine Guðrúnar Yaghi hófu göngu sína fyrir tveimur árum og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í þáttunum taka fyrrum fréttakonurnar fyrir eftirminnileg íslensk fréttamál og kryfja þau til mergjar og hafa þættirnir notið fádæma vinsælda hjá breiðum hópi fólks.

Nú er svo komið að Eftirmál eru á leið á skjáinn og mun sex þátta sjónvarpssería líta dagsins ljós á Stöð 2 í haust.

Sögðu strax já

Hlaðvarpsþættirnir Eftirmál ganga í stuttu máli út á það að Þórhildur og Nadine taka fyrir ákveðið fréttmál í hverjum þætti, ræða um það á léttum nótum og spjalla við einstaklinga sem tengjast málinu með einum eða öðrum hætti. Þess á milli fá hlustendur að heyra hljóðbrot úr fréttum sem birtar voru um viðkomandi mál á sínum tíma.

Það má því segja að Eftirmál sé nokkurs konar blanda af „true crime“, fréttaskýringaþætti og spjallþætti.

„Við höfum í raun sjálfar þróað þetta „konsept“ yfir í það sem það er í dag,“ segir Nadine.

Á undanförnum misserum hefur orðið sú þróun vestanhafs að fjölmargar hlaðvarpsseríur hafa endað sem sjónvarpsþættir og má þar nefna vinsæla þætti á borð við Dirty John, The Dropout og Slow Burn.

Og sjónvarpsþáttaformið býður augljóslega upp á ýmsa möguleika sem hlaðvarpsformið hefur ekki. Í hlaðvarpinu reiðir hlustandinn sig fyrst og fremst á eigin hugarheim til að draga upp mynd af atburðunum, en í sjónvarpinu bætist myndræn frásögn við.

„Við erum að sjá þetta í löndunum í kringum okkur, þetta er augljós þróun. Hlaðvarpið getur verið svo geggjaður miðill og margar frábærar hugmyndir sem spretta upp þar,“ segir Þórhildur.

Þórhildur segir magnað að sjá hvað þættirnir hafa náð að höfða til breiðs hóps af fólki.Vísir/Vilhelm

Það dró fyrst til tíðinda þegar framleiðslufyrirtækið Pegasus hafi samband við þær Þórhildi og Nadine fyrir tæplega einu og hálfu ári og viðraði við þær þá hugmynd að færa Eftirmál yfir í myndrænt form.

„Hún Lilja hjá Pegasus nefndi það við okkur að hún hefði alltaf verið að hlusta á þættina þegar hún var úti að skokka, og um leið og hún kom heim þá fór strax að „gúgla“ málin sem við vorum að fjalla um, lesa sér til og skoða myndefni. Og sá þá kannski eitthvað allt annað en það sem hún var búin að til mynd af í höfðinu á sér. Við vorum ekki lengi að hugsa okkur um þegar þau hjá Pegasus báru þessa hugmynd undir okkur. Við sáum strax fyrir okkur að það væri hægt að búa til frábært sjónvarpsefni,“ segir Nadine.

Báðar með reynslu af skjánum

Þær Þórhildur og Nadine hafa báðar áralanga reynslu af fjölmiðlum. Þær störfuðu áður sem fréttakonur á fréttastofu Stöðvar 2, auk þess sem Nadine kom að fréttaskýringaþættinum Kompás á sínum tíma og Þórhildur var hluti af teyminu á bak við fréttaskýringaþættina Brestir.

„Þessa dagana erum við á fullu í undirbúningi, við förum í tökur í vor og þættirnir verða svo sýndir á Stöð 2 í haust,“ segir Þórhildur en um er að ræða sex þátta seríu. Eiríkur Ingi Böðvarsson mun leikstýra þáttunum, en hann hefur áður komið að vinsælum íslenskum þáttaröðum á borð við Tvíbura og Ísþjóðina hjá RÚV.

„Nálgunin í sjónvarpsþáttunum verður í raun alveg sú sama og í hlaðvarpsþáttunum. Það er að segja, við höldum alveg saman rammanum,“ útskýrir Þórhildur.

„Markmiðið er að reyna að ná að fanga þetta spjall okkar á milli, og í raun veita fólki innsýn inn í allt þetta ferli: frá því að við höfum samband við viðmælendur, meðan við erum að rannsaka og vinna efnið og svo framvegis. Og öfugt við hlaðvarpið þá erum við að sýna myndefni, en ekki hljóðbrot úr gömlum fréttum.“

Nadine fær reglulega spurningar frá fólki um hvort þær stöllur séu ekki að verða uppiskroppa með mál til að fjalla um en reyndin er hins vegar allt önnur.Vísir/Vilhelm

Að sögn Þórhildar og Nadine verða efnistökin af sama toga; fjölbreytt fréttamál sem hafa komið upp hér á landi í gegnum tíðina og hrist upp í þjóðinni.

„Þetta verður góð blanda; sakamál, pólitískt mál og „léttari“ mál,“ segir Nadine.

„Það er alveg augljóst að fólk hefur áhuga á fréttamálum almennt, og þá sérstaklega á þessum mannlega vinkli. Og við viljum gera því góð skil, af því að við höfum augljóslega hitt þarna á einhvern flöt sem hreyfir við fólki,“ segir Þórhildur.

Ótrúleg viðbrögð

Frá því að hlaðvarpsþættirnir Eftirmál hófu göngu sína fyrir tæpum tveimur árum hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. Það endurspeglast í hlustunartölunum.

„Viðbrögðin hafa verið ótrúleg og farið alveg fram úr okkar björtustu vonum. Ég held að við höfum aldrei fengið eins mikil viðbrögð þegar við vorum að vinna í fjölmiðlum á sínum tíma. Og það sem okkur finnst dálítið merkilegt er að þættirnir virðast ná til svo breiðs hóps, á öllum aldri, og bæði til karla og kvenna,“ segir Þórhildur.

„Við erum að fá athugasemdir frá hinum og þessum úti í bæ, úti í Bónus eða á bifreiðaverkstæðinu, frá hinum og þessum sem segjast hlusta á þáttinn. Verkamenn eru að koma til okkar og segjast hlusta á þáttinn á meðan þeir eru í vinnunni. Og ég hef fengið komment frá konum sem segja: ,,Ég hlusta alltaf á þættina, ég dýrka þættina- og pabbi minn líka!“ Okkur þykir ótrúlega vænt um að heyra þetta,“ bætir Nadine við.

„Fólk hefur líka sagt við okkur að það upplifir eins og það sé í alvörunni að fræðast á meðan það er að hlusta á þættina, það er ekki bara að hlusta á eitthvað innantómt spjall. Fólki finnst það ekki vera að sóa tímanum á meðan það er hlusta,“ segir Þórhildur.

„Fólki finnst mjög gaman að hlusta á okkur spjalla um málin á léttu nótunum. Fólki finnst líka mjög áhugavert að fá þessa innsýn sem við höfum; heyra hvernig við nálguðumst málin sjálfar sem fréttamenn á sínum tíma. Þetta spjall, það er eitthvað sem við gátum ekki gert áður sem fréttamenn. Þar þarftu auðvitað alltaf að gæta þess að vera hlutlaus í fréttaflutningi. En það er líka kosturinn við hlaðvarpið, það gefur þér ákveðið frelsi, við erum ekki eins fastar í einhverju formi. Það gerir okkur kleift að gera efnið aðgengilegra, að vissu leyti. Og við ætlum að sjálfsögðu að taka þetta með í sjónvarpsþættina.“

Leiða má líkur að því að Eftirmál sé einn af fáum hlaðvarpþáttum hérlendis þar sem gífurleg rannsóknar- og heimildavinna liggur á bak við hvern og einn þátt.

„Við lögðum alltaf upp með það að gera virkilega vandaða hlaðvarpsþætti, í takt við þá þætti sem hafa komið út erlendis,“ segir Þórhildur. „Og við vildum nýta þá reynslu sem við höfðum sjálfar úr fjölmiðlaheiminum til að skapa gott efni. Það er að sjálfsögðu alveg hægt að gera það hér á Íslandi eins og annars staðar.“

„Fólk er oft að spyrja mig hvort að við séum ekki að verða uppiskroppa með mál, en ég held að við eigum aldrei eftir að vera það. Við erum held ég með einhver hundrað mál á lista sem okkur langar að kanna frekar. Þannig að fólk þarf sko ekkert að hafa áhyggjur af því, það er alveg nóg eftir!“ segir Nadine.

Þær stöllur taka þó fram að þær taki ávallt fagnandi við öllum ábendingum og á Instagram síðu þáttarins getur fólk sent þeim skilaboð varðandi áhugaverð og spennandi fréttamál. Vert er að taka fram að Eftirmál mun einnig halda áfram sem hlaðvarpsþættir í framtíðinni.

„Ég held að það sé tvímælalaust vöntun á þessu efni. Við sjáum það á viðbrögðunum hjá okkur, fólk er þakklát og það kann að meta þetta. Við erum ótrúlega spenntar að koma með Eftirmál í sjónvarpið og sjá hvernig það kemur út,“ segir Nadine að lokum.

Hér má hlusta á alla þætti af Eftirmálum:


Tengdar fréttir

Kú­vending eftir grjót­kastið við Stjórnar­ráðs­húsið

„Það er auðvitað ekkert sérstaklega góð tilfinning að hafa ekki fullkomna stjórn á aðstæðum. En það er hlutverk lögreglu að koma inn í aðstæður þar sem ekki er stjórn á hlutunum, og reyna með einhverjum tiltækum ráðum að ná þeirri stjórn. Og við litum á það sem verkefnið, í öllum þessum tilvikum, að ná þessari stjórn.“

„Ég skil að fólki sé misboðið“

Sú var tíðin að dæmdir kynferðisbrotamenn áttu auðsótta leið að uppreist æru hjá forseta Íslands. Á uppreisnarárinu 2017 ofbauð landsmönnum þessi möguleiki og áður en árið var úti hafði lögunum verið breytt. Ríkisstjórnin var sömuleiðis sprungin eftir að í ljós kom að faðir forsætisráðherra hafði mælt með uppreist æru fyrir mann sem braut kynferðislega á stjúpdóttur sinni yfir tólf ára tímabil.

„Ef ég ætti að giska held ég að tölvurnar hafi verið notaðar“

„Við vorum engir sérfræðingar á rafmynt á þessum tíma. Við lærðum mjög mikið á mjög skömmum tíma,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, sem á sínum tíma rannsakaði Bitcoin-málið svokallaða og sótti það fyrir dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×