Fótbolti

Heimir Hall­gríms og Reggístrákarnir unnu bronsið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson heldur áfram að gera flotta hluti með jamaíska fótboltaboltalandsliðið.
Heimir Hallgrímsson heldur áfram að gera flotta hluti með jamaíska fótboltaboltalandsliðið. Getty/Shaun Clark

Jamaíska fótboltaboltalandsliðið varð í þriðja sæti í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku eftir sigur í bronsleiknum í nótt.

Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson stýrði liðinu til 1-0 sigurs á Panama í leiknum um þriðja sætið á mótinu. Þetta er besti árangur Jamaíka á þessu móti sem fór nú fram í þriðja sinn.

Dexter Lembikisa skoraði eina mark leiksins á 42. mínútu eftir stoðsendingu frá Michael Hector. Lembikis spilar með Hearts í Skotlandi. Hector spilar með enska liðinu Charlton Athletic.

Framherjarnir Demarai Gray og Shamar Nicholson komu báðir inn í liðið eftir að hafa tekið út leikbann í undanúrslitaleiknum. Það munaði um þá og Jamaíka hefði getað unnið þennan leik stærra.

Heimir þurfti að vinna í kringum fjarveru öflugra leikmanna. Jamaíka lék á mótinu án manna eins og Michail Antonio (West Ham), Ethan Pinnock (Brentford), Amari’i Bell (Luton Town) og Leon Bailey (Aston Villa) en sá síðasnefndi var í agabanni.

Liðið varð sekúndum frá því að komast í úrslitaleikinn eftir tap á móti Bandaríkjunum í framlengingu en bandaríska liðið jafnaði leikinn í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Bandaríska liðið vann síðan titilinn eftir 2-0 sigur á Mexíkó í nótt þar sem Tyler Adams og Giovanni Reyna skoruðu mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×