Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson stýrði liðinu til 1-0 sigurs á Panama í leiknum um þriðja sætið á mótinu. Þetta er besti árangur Jamaíka á þessu móti sem fór nú fram í þriðja sinn.
Dexter Lembikisa skoraði eina mark leiksins á 42. mínútu eftir stoðsendingu frá Michael Hector. Lembikis spilar með Hearts í Skotlandi. Hector spilar með enska liðinu Charlton Athletic.
Framherjarnir Demarai Gray og Shamar Nicholson komu báðir inn í liðið eftir að hafa tekið út leikbann í undanúrslitaleiknum. Það munaði um þá og Jamaíka hefði getað unnið þennan leik stærra.
Heimir þurfti að vinna í kringum fjarveru öflugra leikmanna. Jamaíka lék á mótinu án manna eins og Michail Antonio (West Ham), Ethan Pinnock (Brentford), Amari’i Bell (Luton Town) og Leon Bailey (Aston Villa) en sá síðasnefndi var í agabanni.
Liðið varð sekúndum frá því að komast í úrslitaleikinn eftir tap á móti Bandaríkjunum í framlengingu en bandaríska liðið jafnaði leikinn í uppbótartíma venjulegs leiktíma.
Bandaríska liðið vann síðan titilinn eftir 2-0 sigur á Mexíkó í nótt þar sem Tyler Adams og Giovanni Reyna skoruðu mörkin.
— Official J.F.F (@jff_football) March 25, 2024
— Official J.F.F (@jff_football) March 25, 2024