Kristiansund vann 1-0 á heimavelli gegn Tromsö. Brynjólfur Darri Willumsson og Hilmir Rafn Mikaelsson voru báðir í byrjunarliði Kristiansund. Brynjólfur vann vítaspyrnu á 56. mínútu og steig sjálfur á punktinn en skot hans fór í stöngina og út.
Kristiansund hefur byrjað mótið ágætlega og er með 7 stig eftir 4 leiki í 6. sæti deildarinnar.
Patrik Snær Gunnarsson varði mark Viking gegn Fredrikstad. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Júlíus Magnússon lék allan leikinn á miðjunni hjá Fredrikstad.
Liðin eru jöfn að stigum í 11. og 12. sæti deildarinnar, tvö jafntefli, eitt tap og einn sigur í fyrstu fjórum leikjunum.
Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar, Haugesund, máttu þola 1-3 tap á heimavelli gegn Rosenborg. Anton Logi Lúðvíksson lék allan leikinn á miðjunni hjá Haugesund. Hlynur Freyr Karlsson kom ekki við sögu.
Haugesund hefur tapað tveimur af fjórum leikjum en unnið hina tvo.