Körfubolti

Luka og fé­lagar jöfnuðu: „Þetta var 90s körfu­bolti eins og hann gerist bestur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic og Amir Coffey berjast um boltann í leik Los Angels Clippers og Dallas Mavericks.
Luka Doncic og Amir Coffey berjast um boltann í leik Los Angels Clippers og Dallas Mavericks. getty/Keith Birmingham

Varnarleikurinn var í aðalhlutverki þegar Dallas Mavericks sigraði Los Angeles Clippers, 93-96, í öðrum leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Staðan í einvíginu er 1-1.

Luka Doncic fór fyrir Dallas-liðinu, skoraði 32 stig og gaf níu stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 23 stig og PJ Washington átján.

Varnir beggja liða voru sterkar í leiknum í nótt, eitthvað sem gladdi Jason Kidd, þjálfara Dallas.

„Við spiluðum 48 mínútur af hörðum körfubolta. Bæði lið skoruðu minna en hundrað stig. Þetta var 90s körfubolti eins og hann gerist bestur,“ sagði Kidd.

Kawhi Leonard sneri aftur í lið Clippers og lék sinn fyrsta leik síðan 31. mars. Hann skoraði fimmtán stig. Paul George og James Harden voru stigahæstir hjá heimamönnum með 22 stig hvor.

Minnesota Timberwolves komst í 2-0 í einvíginu gegn Phoenix Suns með 105-93 sigri í öðrum leik liðanna í nótt.

Varnarleikur Úlfanna var sterkur og helstu sóknarmenn Sólanna, Devin Booker, Kevin Durant og Bradley Beal, hittu aðeins úr samtals átján af 45 skotum sínum.

Anthony Edwards átti erfitt uppdráttar hjá Minnesota en það kom ekki að sök. Jaden McDaniels skoraði 25 stig, sem er það mesta sem hann hefur gert í úrslitakeppni á ferlinum, og Mike Conley og Rudy Gobert skiluðu báðir átján stigum.

Þá jafnaði Indiana Pacers metin gegn Milwaukee Bucks í Austurdeildinni með 108-125 útisigri.

Pascal Siakam átti stórleik fyrir Indiana. Hann skoraði 37 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Myles Turner skoraði 22 stig og Andrew Nembhard tuttugu.

Damian Lillard skoraði 34 stig fyrir Milwaukee sem lék án Giannis Antetokounmpo eins og í fyrsta leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×