Fyrir framan Hallgrímskirkju söfnuðust saman fulltrúar stéttarfélaganna sem tóku þátt í kröfugöngunni og aðrir sem vildu leggja baráttunni lið. Stéttarfélögin voru mörg og fjölbreytt, en kröfurnar á svipuðum nótum. Betri kjör fyrir fólkið sem heldur öllu gangandi. Nýstofnað félag Visku, stéttarfélags sérfræðinga, var meðal þeirra sem tóku þátt.
„Við eigum að fá borgað sanngjörn laun fyrir okkar störf,“ segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, formaður Visku.

Og það hefur ekki verið þannig hingað til?
„Nei, minnsti ávinningur af háskólamenntun í Evrópu er á Íslandi. Þannig það er verk að vinna,“ segir Georg Brynjarsson, framkvæmdastjóri Visku.

Við viljum náttúrulega bætt kjör og við viljum miklu betra starfsumhverfi. Við sjáum það að það þarf líka að bæta starfsumhverfi fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk. Og sérstaklega hjúkrunarfræðingana sem ég tala fyrir. Bætt kjör og betra starfsumhverfi,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

„Við sjáum það í dag að það er enn mikilvægara að koma saman og sýna samstöðu í verki. Það er hart sótt að okkar fólki og við þurfum að sækja fram,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

„Við krefjumst virðingar fyrir verka- og láglaunafólks. Við krefjumst valda í samfélaginu, við krefjumst þess að við sem sköpum arðinn fáum að njóta afraksturs vinnu okkar. Svo erum við hér líka til að standa með fólkinu í Palestínu og krefjast skilyrðislauss vopnahlés strax í dag,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Þá tók að minnsta kosti einn forsetaframbjóðandi þátt í göngunni.
„Bara eins og ég hef gert frá því ég man eftir mér. Ég var alin upp við það að halda þennan dag hátíðlegan og að sjálfsögðu mæti ég hér núna eins og áður,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Gengið var frá Skólavörðuholti niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Ingólfstorgi þar sem ræðuhöld fóru fram.
Sambærileg dagskrá fór fram um land allt, þar á meðal Selfossi þar sem gengin var kröfuganga og ræðuhöld fóru fram, Akureyri og Ísafirði. Í Hafnarfirði voru haldnir samstöðu- og baráttutónleikar þar sem Jóhanna Guðrún, meðal annarra, tók lagið.
Fleiri myndir frá deginum má sjá hér fyrir neðan.





