Hið athyglisverða við þetta er að rúðubrotin eru svo til nákvæmlega eins og þau sem áttu sér stað í Kormakmarket við Skólavörðustíg 21, en Vísir hefur greint frá því. Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi telur ekki ólíklegt að þarna sé sami maður á ferð.
„Þú ert sennilega bara búinn að leysa málið,“ segir Guðmundur Pétur við blaðamann. „Ég er ekki búinn að skoða þetta, gögnin eiga eftir að berast til mín. Þetta er splunkunýtt.“
Það var RÚV sem greindi frá atvikinu við Just Kebab og Vísir sá þegar í hendi sér að um hliðstæð atvik er að ræða.
Guðmundur Pétur segir að eigendur verði að bera sig eftir björginni en það gætu þeir gert með því að setja upp áberandi myndavélar. Þetta snúist allt um að geta sannað verknaðinn.

Þetta er í annað skiptið sem eignaspjöll eru tilkynnt við Just Kebab og það passar, þau eiga sér stað á svipuðum tíma eða 29. apríl og svo 3. maí.
„Við erum með mann nefndan, af hálfu búðareigandans, en við getum ekki sannað neitt á hann. En það bendir auðvitað flest til að þarna séu einhverjar illdeilur að baki en við bara getum ekkert fullyrt um það á þessu stigi,“ segir Guðmundur Pétur.