Fundað var í deilunni fram á kvöld í gær og deiluaðilar mættu aftur til ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun. Þegar fréttastofan leit þar við milli klukkan tíu og ellefu hafði enn ekki átt sér stað sameiginlegur fundur stéttarfélaganna með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins.
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis segir samninga stranda á nokkrum atriðum sem ekki hafi tekist að koma áfram og því hafi verið ákveðið að hvíla viðræðurnar í gærkvöldi. Unnar Örn Ólafsson formaður FFR segir ágreining um ófagtengd réttindi varðandi vinnutíma, orlof í fæðingarorlfi og greiðlu yfirvinnu sem þurfi að jafna innan Ísavía.
Fyrstu aðgerðir hefjast klukkan 16 á fimmtudag með í ótímabundnu yfirvinnubanni allra starfsmanna Sameykis og FFR á Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma hefst einnig ótímabundið þjálfunarbann. Ef samningar hafa síðan ekki tekist fyrir næst komandi föstudag leggur starfsfólk sem sinnir öryggisleit niður vinnu frá klukkan fjögur að morgni föstudagsins til klukkan átta. Allar þessar aðgerðir geta raskað áætlunum flugfélaga.
Dugi þetta ekki til leggja starfsmenn í öryggisleit einnig niður vinnu frá kl 4 til 8 fimmtudaginn 16. maí, föstudaginn 17. maí og mánudaginn 20. maí.

Þórarinn Eyfjörð segir stéttarfélögin hafa rætt deiluefnin við Ísavía um langt skeið í samningaviðræðum á undanförnum árum.
„Það standa alltaf út af einhver atriði sem við verðum að fara að ná landi með. Það er að segja þetta eru hlutir sem við verðum núna að ná einhvers konar sammkomulagi um þannig að við getum haldið áfram inn í framtíðina. Og þær aðgerðir sem við höfum boðað eru til að knýja á um að hlutirnir séu í lagi,“ segir Þórarinn.
Unnar Örn segir fólk í sömu störfum hjá Ísavía en í öðrum stéttarfélögum hafi ekki sömu vinnuskyldu eins og staðan væri nú. Þetta þyrfti að samræma. Þórarinn segir vinnuskylduna og greiðslurnar meira að segja ólíkar á millli félagsmanna Sameykis og FFR. Þetta fyrirkomulag gengi ekki upp og þyrfti að leiðrétta. Báðir segja þeir að ef þessum hindrunum væri rutt úr vegi gætu samningar tekist á skömmum tíma.
„Launaliðurinn er kannski ekki alveg klár því það eru þarna flækjur í sambandi við töflu og fleira sem á að leysast. En við ætlum að vera vongóð og full af góðri trú um að við getum stigið yfir þær hindranir sem mæta okkur núna,“ segir Þórarinn Eyfjörð.